Upplýsingar

Upplýsingar

Almennar upplýsingar
Félagsstofnun stúdenta annast rekstur Stúdentagarða. Hlutverk þeirra er að bjóða stúdentum við Háskóla Íslands hentugt og vel staðsett húsnæði til leigu á sanngjörnu verði. Húsnæðið er af ýmsum stærðum og gerðum. Einstaklingum er boðið upp á einstaklingsherbergi, tvíbýlisherbergi og stúdíóíbúðir. Pörum er boðið upp á tveggja herbergja íbúðir (paríbúðir) og fjölskyldum er boðið upp á tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðir.
  • Á háskólasvæðinu eru: Oddagarðar við Sæmundargötu, Hjónagarðar við Eggertsgötu 2-4, Vetrargarðar við Eggertsgötu 6-10 og Ásgarðar við Eggertsgötu 12-34, Gamli Garður við Hringbraut og Skerjargarður við Suðurgötu 121.
  • Í miðbæ eru: Skuggagarðar við Lindargötu 42, 44, 46 og 46A og Skjólgarður við Brautarholt 7.
  • Í Fossvoginum eru: Skógargarðar við Skógarveg 18-22, tveggja og þriggja herbergja fjölskylduíbúðir. 

Allt húsnæði Stúdentagarða hefur aðgang að tölvuneti HÍ. Leigutökum er með öllu óheimilt að halda gæludýr til styttri eða lengri tíma.

 
Umsóknir
Umsóknum um garðvist þarf að skila með rafrænum hætti á umsóknarformi sem er að finna undir flipanum "Umsókn" í aðalvalmynd heimasíðunnar. Með því að senda inn umsókn sína gefur umsækjandi Stúdentagörðum heimild til að sannreyna uppgefnar upplýsingar og senda inn fyrirspurn um húsnæðiseign sína til Fasteignamats ríkisins, fjölskyldustærð eða barnafjölda til Hagstofu Íslands og námsframvindu og/eða greiðslu skrásetningargjalda til Háskóla Íslands.
 
Úthlutanir
Úthlutanir í húsnæði fara fram allan ársins hring. Húsnæði á Stúdentagörðum er almennt úthlutað til eins árs í senn og er leigutímabil ávallt frá ágúst til ágúst. Á Gamla Garði er tímabilið þó aðeins 9 mánuðir, frá ágúst til 26. maí. Við lok leigutímabils þarf ávallt að endurnýja leigusamning. Leigusamningar sem gerðir eru á miðju tímabili gilda því aldrei lengur en til ágúst, sama hvenær skrifað var undir samning. Stuðst er við úthlutunarreglur Stúdentagarða við úthlutun húsnæðis (sjá reglur undir flipanum umsókn). Skrifstofa Stúdentagarða sendir umsækjendum tilkynningu um úthlutun á það tölvupóstfang sem skráð er á umsóknina. Úthlutun og veru á biðlista skal staðfesta á heimasíðu Stúdentagarða fyrir tiltekinn tíma.
 
Samningar / Gjaldskrá

Úthlutunarhafi skrifar undir leigusamning áður en húsnæðið er afhent. Allir leigusamningar enda í ágúst, hvert ár. Í apríl mánuði leita Stúdentagarðar eftir upplýsingum frá íbúum en þá er þeim skylt að fara inn á heimasíðu FS- "mínar síður" og svara hvort þeir óski eftir endurnýjun leigusamnings eða ekki. Allir íbúar verða að sinna þessu árlega. Samningar endurnýjast rafrænt að þeim tíma liðnum, að uppfylltum skilyrðum úthlutunarreglna (sjá reglur undir Umsóknir). 

  • Umsýslugjald fyrir hvern stofnaðan samning og fyrir endurnýjun samnings og framlengdan er 4.000 kr.
  • Milliflutningsgjald er 10.000 kr.
  • Allir þeir sem eiga lögheimili utan Íslands greiða tryggingafé áður en að undirritun samnings kemur sem samsvarar einni mánaðarleigu eða að lágmarki kr. 70.000 kr. ef mánaðarleiga er lægri auk 10.000 króna þrifagjalds.
  • Tölvuaðstoð -útkall sem fellur á íbúa v/bilunar í eigin búnaði 5000 kr.
  • Bílastæðaopnari (við Skjólgarð í Brautarholti og Skógargarða við Skógarveg) kostar 15.000 kr. sem fást endurgreiddar við skil á opnara.
  • Geymsla á húsgögnum (rúm/ísskápar ofl) kostar 7.500 kr. Í því gjaldi er innifalin vinna við að fjarlægja húsgagnið, akstur, geymsla og koma því aftur fyrir, við lok leigusamnings.
 
Húsgögn
Húsgögn fylgja herbergjum á Gamla Garði, herbergjum með sameiginlegri aðstöðu á Oddagörðum (Sæmundargata 14-16) og tvíbýlum í gjaldflokki 5-5. Unnt er að fá rúm, borð og stól inn í aðrar íbúðir gegn 15.000 kr. greiðslu.
 
Flutt í nýtt húsnæði
Á leigusamningi kemur fram hvenær leigusamningur hefst og er hægt að sækja lykil frá og með þeim degi á skrifstofu Umsjónar fasteigna. Skrifstofa Umsjónar fasteigna er til húsa í Eggertsgötu 6 og er opin frá 09.00-13.00 alla virka daga. Úttekt er gerð á húsnæðinu áður en leigjendaskipti verða. Nýr leigutaki fær síðan sjö daga frest til að gera athugasemdir við úttektina. Athugasemdunum, ef einhverjar eru, skal skila á sérstöku eyðublaði sem leigjandi fær við móttöku húsnæðisins. Að þeim tíma liðnum er litið svo á, að úttektin sé samþykkt.
 
Uppsögn/skil á húsnæði
Húsnæði er sjálfkrafa sagt upp við lok leigusamnings. Þeir sem hyggjast búa áfram á görðum eftir að samningstímabili lýkur, þurfa að biðja um framlengingu samnings í apríl ár hvert. Ef húsnæði er sagt upp áður en leigutíma lýkur skal nota þar til gert uppsagnarform á heimasvæði leigjandans. Stúdentagarðar áskilja sér rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti á leigutímabilinu. Uppsagnarfrestur styttist ef skrifstofa Stúdentagarða getur útvegað nýjan íbúa fyrr, en fresturinn verður þó aldrei styttri en einn mánuður frá uppsögn. Umsjón fasteigna framkvæmir úttekt, þegar íbúð hefur verið tæmd og þrifin. Ekki er gengið frá uppgjöri fyrr en úttektareyðublað og greiðslukvittun fyrir síðustu mánaðarleigu liggja fyrir.
 
Trygging
Íslenskir leigutakar þurfa ekki að reiða fram fyrirframgreiðslu eða tryggingu af neinu tagi. Allir þeir sem ekki eiga lögheimili á Íslandi greiða tryggingarfé áður en að undirritun samnings kemur sem samsvarar einni mánaðarleigu eða að lágmarki 70.000 kr. ef mánaðarleiga er lægri auk 10.000 króna þrifagjalds. Tryggingarfé þetta er að fullu endurgreitt við brottför, séu allir reikningar greiddir, húsnæðið hreint og engar skemmdir hafi orðið á húsnæðinu eða fylgihlutum þess. 
 
Húsnæðisbætur
Hægt er að sækja um húsnæðisbætur vegna leigu á öllu húsnæði Stúdentagarða, en leigusamningar þurfa að gilda í lágmark 3 mánuði. Leigjendur sækja sjálfir um það á www.husbot.is