Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fréttir

29.05.2019 14:56

Umsóknir nýnema, nýtt hús, vinir búa saman!

Umsóknir nýnema
Þann 1. júní opnast fyrir umsóknir nýrra nema við Háskóla Íslands um húsnæði á Stúdentagörðum Félagsstofnunar stúdenta. Reiknað er með að hundruðir umsókna berist fyrstu klukkustundirnar en alla jafna sækja um 1.000 manns um fyrir úthlutun á haustin.

Nýtt hús, vinir búa saman!
Framkvæmdir standa nú yfir við byggingu nýs Stúdentagarðs á háskólalóðinni, á Sæmundargötu í Vísindagarðahverfinu. Er hann sá stærsti sem byggður hefur verið, um 14.700  fermetrar á fimm hæðum með 244 leigueiningum fyrir tæplega 300 íbúa. Í húsinu verður m.a. boðið upp á nýtt íbúðaform, þ.e.  10 herbergja íbúðaklasa með sameiginlegu rými. Að auki verður stór sameiginlega aðstaða fyrir alla íbúa hússins miðsvæðis á lóðinni.  Nýi Stúdentagarðurinn verður tekinn í notkun í byrjun árs 2020 en tekið er við umsóknum nú frá og með 1. júní. Í fyrsta sinn verður boðið upp á að vinir geti deilt sameiginlegri aðstöðu.

Til þess að sækja um slíkt fyrirkomulag sækir viðkomandi um herbergi með sameignlegri aðstöðu og setur nafn 1-2 vina í athugasemd. Sömu vinir gera slíkt hið sama. 

Félagsstofnun stúdenta hefur undanfarin ár lagt aukna áherslu á sameiginleg rými við hönnum nýs húsnæðis en auk þess hefur sameiginleg aðstaða  verið aukin og betrumbætt í eldra húsnæði. Tilgangurinn er að hvetja til aukins samneytis íbúa og vinna gegn félagslegri einangrun. Félagsstofnun stúdenta stefnir að áframhaldandi uppbyggingu Stúdentagarða en undanfarin ár hafa um 800 - 1.000 manns verið á biðlista að haustúthlutun lokinni. Nýnemar geta sótt um frá 1. júní ár hvert en eldri nemar allt árið um kring.
Meira ...
31.05.2017 16:04

Stúdentagarðar

Á Stúdentagörðum er líflegt og skemmtilegt samfélag háskólanema og fjölskyldna þeirra. Garðarnir eru af ýmsum stærðum og gerðum og sniðnir að þörfum íbúanna. Áhersla er lögð á góða nýtingu á plássi, hagkvæmni, samnýtingu og samveru til að stuðla að góðum samskiptum íbúa.
Flestir Stúdentagarðanna eru staðsettir á háskólasvæðinu en einnig eru stúdentaíbúðir í Fossvogi, rétt fyrir ofan Hlemm og við Lindargötu. Þegar staðsetning Stúdentagarða er valin er lögð áhersla á að húsnæðið sé í nágrenni við HÍ, í göngu og hjólafjarlægð eða nálægt góðum almenningssamgöngum. Mikil áhersla er lögð á að gera sameiginleg rými vistleg og skemmtileg þannig að íbúar kynnist, eigi samskipti og njóti saman.
Stúdentar við Háskóla Íslands geta sótt um húsnæði allt árið um kring en þeir sem hefja nám við skólann í haust geta sótt um frá og með 1. júní.
Meira ...
18.05.2017 09:37

Sumar 2017!

Á hverju misseri fer starfsfólk Stúdentagarða yfir fjölda eininga sem íbúar hafa skilað í námi, en samkvæmt úthlutunarreglum þurfa íbúar að ljúka amk. 20 einingum á misseri.
Reglurnar eru settar svo hægt sé að hafa eftirlit með að Stúdentagarðar þjóni tilgangi sínum, þ.e. að bjóða stúdentum við HÍ húsnæði á sanngjörnu verði.

Eftir að vormisserisprófum lýkur taka sjúkra- og endurtökupróf við og standa yfir til 23. maí. Í kjölfarið fara kennarar yfir próf og verkefni. Það er því ekki fyrr en liðið er á sumar sem einingar liggja fyrir og við getum farið á fullt! Haft er samband við íbúa til að athuga hverjir óska eftir endurúthlutun og hverjir hyggjast flytja út í ágúst.

Allt tekur þetta tíma en að lokum sjáum við hvað er að losna og hverju við getum úthlutað til þeirra sem eru á biðlista. Við reynum að vinna eins hratt og við getum, en verðum samt að vanda okkur, og biðjum fólk að sýna okkur biðlund.

Í framhaldi af þessu minnum við nýja vini, þ.e. nýnema næsta skólaárs, á að það styttist í að þeir geti sótt um.

1. júní næstkomandi er dagurinn! Núverandi nemendur geta sem áður sótt um allan ársins hring. Farið verður yfir maí umsóknir (núverandi nemenda) í júní, júní umsóknir í júlí og svo koll af kolli allan ársins hring.

Gleðilegt sumar!
Meira ...
07.04.2017 11:29

Vinningstillaga á stækkun Gamla Garðs

Vinningstillaga á stækkun Gamla Garðs var kynnt í vikunni og verðlaun veitt, en í byrjun árs efndi Félagsstofnun stúdenta til samkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands um skipulags- og grunnhönnun á nýjum stúdentagarði á lóðinni.

Gamli Garður er elsti stúdentagarðurinn á háskólalóðinni og var tekinn í notkun árið 1934.  Hefur hann verið leigður út til stúdenta yfir vetrartímann en nýttur sem hótel á sumrin. Starfsemi á háskólasvæðinu hefur breyst mikið undanfarin ár samfara auknu alþjóðlegu samstarfi Háskóla Íslands og einskorðast ekki lengur við vetrartímann. Með tengingu nýrra stúdentaíbúða við Gamla Garð verður betur hægt að sinna erlendum stúdentum, fræðimönnum og ráðstefnugestum sem þurfa á skammtímahúsnæði á viðráðanlegu verði að halda á meðan þeir stunda hér rannsóknir og nám á sumrin. Verður þá bæði hægt að sækja um dvöl á Gamla Garði í lengri og skemmri tíma.

Alls bárust 13 tillögur í keppnina en vinningstillöguna áttu Ydda arkitektar og DLD - Dagný Land Design. Ydda var stofnuð árið 2013 af Hildi Ýri Ottósdóttur og Hjördísi Sóleyju Sigurðardóttur sem báðar luku BA prófi í arkitektúr frá LHÍ. Að því loknu lauk Hildur Ýr meistaraprófi frá EPFL í Lausanne, Sviss en Hjördís Sóley meistaraprófi frá TU-Delft í Hollandi. DLD - Dagný Land Design var stofnað árið 2011 af Dagnýju Bjarnadóttur en hún lauk meistaraprófi í landslagsarkitektúr frá Kaupmannahafnarháskóla.

Í umsögn dómnefndar um tillöguna segir m.a. að hönnun húsanna falli vel að hugmyndum FS um samfélag stúdenta, en í samkeppnislýsingu kom m.a. fram að áherslur í byggingu og nýtingu skyldi vera í takt við þá stefnu FS að auka lífsgæði stúdenta. Fyrirkomulag lóðar er skemmtilegt og býður upp á opið samfélag íbúa og annarra gesta háskólasvæðisins. Íbúar Gamla Garðs fá með tillögunni útisvæði til afnota sem er vel þegið. Þá fær hann skjól frá nýbyggingu við Hringbraut en skapar skemmtilega opnun inn á háskólasvæðið í átt að Skeifu og Sæmundargötu. Vonast er til að framkvæmdir við bygginguna hefjist í lok árs og að hún verði tekin í notkun vorið 2019.

 Mynd, frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS, Elisa Sarasso og Dagný Bjarnadóttir hjá DLD og Hjördís Sóley og Hildur Ýr hjá Yddu.

 


Meira ...
02.03.2017 10:11

Háskóladagurinn 2017

Næstkomandi laugardag, 4. mars, fer Háskóladagurinn fram. Tilgangur dagsins er að kynna fjölbreytt námsframboð og þjónustu við stúdenta.
Á Háskólatorgi verða ótal viðburðir, kynningar og uppákomur sem sýna vísindin og lífið á torginu í litríku ljósi. Gestum og gangandi býðst að spjalla við þá ótal mörgu aðila sem starfa innan háskólasamfélagsins.

Félagsstofnun stúdenta verður á Háskólatorgi og býður alla velkomna sem vilja kynna sér þjónustu okkar. Þar má  meðal annars nefna Stúdentagarða, Leikskóla stúdenta og Bóksölu stúdenta.
Við verðum að sjálfsögðu með opið í Hámu, Stúdentakjallaranum og í Bóksölu stúdenta/Bókakaffi.
Meira ...
23.11.2016 12:38

Rúm 98% íbúa á Stúdentagörðum mæla með búsetunni

Árleg þjónustukönnun Stúdentagarða var send út í október til allra íbúanna okkar. Rúm 98% svarenda mæla með því að búa á Stúdentagörðum. Samkvæmt niðurstöðum er leiguverð og staðsetning það besta við að búa á Stúdentagörðum, en þessir tveir þættir auk aðstöðunnar á görðunum eru helstu áhrifaþættir í þeirri ákvörðun stúdenta um að sækja um á Stúdentagörðum. 

Allar ábendingar sem komu fram í könnuninni eru teknar til athugunar og verður unnið markvisst að úrbótum á næstu vikum og mánuðum. Nánari upplýsingum um niðurstöður könnunarinnar verður miðlað til íbúa Stúdentagarða. 

Takk fyrir þátttökuna!

The Student Housing services survey was sent out in October. Just over 98% recommend living in Student housing.According to the results of the survey service, the rental price and the location are the best things of living in Student housing, but these two factors as well as the facilities are the main determinants in the decision of applying for Student housing.

We will work efficiently towards improving Student housing and the services in the coming weeks and months.

Thank you for your participation!

Meira ...
17.10.2016 16:26

Skjólgarður: nýr garður í Brautarholti 7

Okkur er sönn ánægja að tilkynna að nafn hefur verið valið á nýju garðana okkar í Brautarholti 7!

Á dögunum efndum við til nafnasamkeppni og bárust um 460 tillögur. Nafnið sem varð fyrir valinu þótti fallegt og lýsandi fyrir væntingarnar sem við höfum til nýja garðsins.

Nafnið er Skjólgarður!

Við þökkum öllum sem sendu tillögur og höfum við samband við vinningshafann (Svölu J.) sem var dreginn út, því fleiri en ein tillaga barst um nafnið. Fleiri munu einnig hljóta glaðning fyrir þátttökuna, alls 10 manns.

Og þá er komið að því að úthluta! Við hefjumst handa á morgun, þriðjudag (18. okt)
Meira ...
21.09.2016 09:35

Nýir stúdentagarðar í Brautarholti. Nafnasamkeppni!

Nýir stúdentagarðar í Brautarholti verða teknir í gagnið í nóvember mánuði. Spennan er gríðarleg og nú þurfum við hjálp ykkar við að finna nafn á nýja barnið!
Til að taka þátt þarf að smella einu like-i á fésbókarsíðu Félagsstofnunar stúdenta og senda nafnatillögu á netfangið studentagardar@fs.is. Nánari upplýsingar um nafnasamkeppnina finnur þú hér


Meira ...
31.05.2016 11:10

Nýnemar og nýir stúdentagarðar!

Brátt rennur stundin upp sem nýnemar næsta hausts hafa beðið eftir. Eftir miðnætti 31. maí, þ.e. aðfaranótt miðvikudagsins 1. júní, geta þeir sem stefna á nám við Háskóla Íslands í haust sótt um húsnæði á stúdentagörðum. Við bendum umsækjendur á að opna umsóknina ekki fyrr en 1. júní er brostinn á kl. 00.01, og nýnemahnappur birtist á síðunni.  
 
Þeir sem nú stunda nám við HÍ geta sótt um allt árið um kring og þurfa því ekki að bíða til 1. júní.
 
Í nóvember n.k. munu 102 nýjar íbúðir bætast við þegar 32 paríbúðir og 70 einstaklingsíbúðir verða teknar í notkun á nýjum stúdentagörðum sem nú rísa í Brautarholti.  Garðarnir eru staðsettir á frábærum stað í miðbænum, rétt fyrir ofan Hlemm. Einstaklingsíbúðirnar munu bætast við lista yfir stúdíó í miðbæ og paríbúðirnar við paríbúðarlistann.
 
Byrjað verður að úthluta fyrir haustið í júlí og verður úthlutun lokið seinnipart ágúst. Í kjölfarið hefst úthlutun íbúða á nýju görðunum. 

Á næstunni verðum við með nafnasamkeppni fyrir nýju garðana þar sem auglýst er eftir nafni og veglegir vinningar í boði fyrir þann sem leggur það til. Fylgist með á facebook síðu FS, keppnin verður auglýst síðar!
 
Meira ...
24.05.2016 15:04

Neyðarnúmer Stúdentagarða

FS er með samning við Securitas um símsvörun neyðarnúmers. Númerið er 853-1000. Hægt er að hringja í númerið þegar ekki er opið hjá Umsjón Fasteigna (mánud. - föstud. kl. 9 - 13) eða á skrifstofu Stúdentagarða (mánud. - föstud. kl. 9 - 16).

 Sá eða sú sem svarar neyðarnúmeri metur í hvert sinn hvort bregðast þurfi strax við erindinu eða hvort það geti beðið. Ef um ótvíræð neyðartilvik er að ræða skal hringt í 112.
  
Einnig bendum við á hjálparsíma Rauða krossins 1717 sem opinn er allan sólarhringinn fyrir þá sem á þurfa að halda. Náms- og starfsráðgjöf HÍ veitir einnig fjölbreytta þjónustu. Þar er opið virka daga kl. 9 - 12 og 13 - 16. Síminn er 525-4315. 
Meira ...
03.05.2016 13:50

Nýnemar

Nú styttist í að nýnemar við Háskóla Íslands skólaárið 2016-2017 geti sótt um á Stúdentagörðum. Nýnemar sem hefja nám að hausti geta sótt um frá og með 1. júní. Nýnemar að vori, frá og með 1. október. Við leggjum áherslu á að umsækjendur kynni sér vel bæði leiðbeiningar sem fylgja umsókn sem og úthlutunarreglur FS.

Hafið endilega samband eða komið við á skrifstofu FS til að fá leiðsögn varðandi umsókn og/eða val á húsnæði. Farið verður yfir umsóknir júní mánaðar í júlí og svo koll af kolli.
Meira ...
14.03.2016 15:49

Nýir garðar í Brautarholti og á háskólasvæði

Næsta haust munu 100 íbúðir verða teknar í gagnið, nýir garðar í Brautarholti. Staðsetning garðanna er á margan hátt hentug fyrir stúdenta við Háskóla Íslands sem sækjast eftir að búa í nágrenni við skólann og miðsvæðis í borginni. Brautarholt er í göngufæri við húsnæði HÍ í Stakkahlíð og sömuleiðis hægt að ganga og hjóla til og frá háskólasvæðinu í Vatnsmýrinni.  Frá Brautarholti er stutt í almenningssamgöngur og alla þjónustu.

Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands hafa undirritað samkomulag um stækkun Stúdentagarða um 230-300 einingar á háskólasvæðinu. Hluti íbúðanna verða við Gamla Garð sem opnaður var fyrir rúmum 80 árum. Flestar nýju íbúðanna verða hinsvegar staðsettar á horni Sæmundargötu og Eggertsgötu. Á komandi misserum er því stefnt að meiri uppbyggingu á háskólasvæðinu.

Leigueiningar á Stúdentagörðum eru í dag um 1.100 og í þeim búa um 1.700 manns, stúdentar við HÍ og fjölskyldur þeirra.
Meira ...
23.12.2015 13:53

Jólakveðja // Christmas greeting

 

Jólakveðja til íbúa Stúdentagarða


Við sendum þér ósk um gleðileg jól og farsæld á nýju ári. 
Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða.


Our best wishes for a Merry Christmas and a Happy New Year. 
Thank you for our collaboration in the past year.

Meira ...
21.12.2015 11:29

Opnunartímar á Stúdentagörðum yfir hátíðirnar

Skrifstofur Stúdentagarða og Umsjónar Fasteigna verða lokaðar á neðangreindum dögum yfir hátíðirnar. Aðra daga verður hefðbundinn opnunartími frá kl.9-13 hjá Umsjón Fasteigna og kl.9-16 á Skrifstofu Stúdentagarða.

24. desember Aðfangadagur – Lokað

25. desember Jóladagur – Lokað

28. desember – Lokað

31. desember Gamlársdagur – Lokað

1. janúar Nýársdagur – Lokað 

Meira ...
13.10.2015 10:32

Verkföll í Háskóla Íslands

Margir íbúar hafa haft samband við Stúdentagarða vegna yfirvofandi verkfalla SFR. Við viljum því benda á að Umsjón Fasteigna á Stúdentagörðum er EKKI á leið í verkfall í lok vikunnar. Verkfallið nær eingöngu til Umsjónarmanna húseigna Háskóla Íslands. 
Íbúar á Stúdentagörðum geta því áfram leitað til Umsjónar Fasteigna á Eggertsgötu 6 milli kl.9-13 alla virka daga. 
Meira ...
26.08.2015 13:46

Stúdentagarðar - Framlengdir leigusamningar

Þeir íbúar sem bjuggu á Stúdentagörðum síðastliðið skólaár/misseri og fengu samningi sínum framlengt fyrir nýtt skólaár athugið - Öllum þjónustumiðstöðvum verið tilkynnt um rafræna framlengingu.

-Jafnframt fengu allir staðfestingu um þessa framlengingu í tölvupósti, flestir um miðjan júlí. Þessa staðfestingu áframsendið þið á ykkar þjónustuaðila.
Meira ...
08.07.2015 12:49

Staða á úhlutun og umsóknum

Við viljum benda á að á Facebook er að finna síðuna okkar, Félagsstofnun stúdenta, en þar setjum við meðal annars inn upplýsingar um stöðu mála þessa dagana. Nú er unnið hart að því að komast áleiðis í umsóknum og öðrum málum sem klára þarf til þess að fara af stað með úthlutun og því bendum við stúdentum að leita svara þar til að byrja með.
Meira ...
07.07.2015 13:30

Yfirferð Júní umsókna og úthlutun fyrir haustið.

Yfirferð umsókna júnímánaðar stendur sem hæst og mun taka eitthvað fram í vikuna. Við bendum jafnframt á að við erum ekki farin af stað með úthlutun fyrir haustið enda liggjur fjöldi lausra eininga ekki fyrir nú. Má reikna með að stóra úthlutunin hefjist í lok mánaðar.
Meira ...
30.06.2015 12:36

Umsóknir Júní 2015

Nú fer að koma að yfirferð umsókna júní mánaðar, upplýsingar um skráningu og greiðslu skrásetningargjalds eru sóttar til Nemendaskrár HÍ á morgun, miðvikudag 1. júlí.
Hundruðir umsókna bárust okkur í mánuðinum og því mun taka nokkra daga að fara yfir þær.

Meðfram þeirri vinnu stendur yfir vinna við útskrifta- og einingamál ásamt endurnýjun leigusamninga íbúa sem ætla sér að búa áfram á Stúdentagörðum.
Þau verk leiða svo til þess að upplýsingar liggja fyrir um hve margar einingar eru að koma inn í ágústmánuði.

Við úthlutum allan ársins hring en sú stóra fer fram seinnihluta júlímánaðar og stendur yfir fram í september. Því minnum við alla á að staðfesta umsókn sína um hver mánaðarmót (1-5. hvers mánaðar).
 
Meira ...
18.06.2015 14:42

100 ára kosningarafmæli kvenna

Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna verða Bóksala stúdenta, Bókakaffi stúdenta, Háma og skrifstofur Félagsstofnunar stúdenta og Stúdentagarða lokaðar frá kl. 13 föstudaginn 19. júní. Opið verður í Stúdentakjallaranum.
Meira ...
01.06.2015 11:36

Umsóknir nýnema skólaárið 2015-2016

Opnað hefur verið fyrir umsóknir nýnema en þeir sem eru að hefja nám haustið 2015 geta sótt um frá og með 1. júní.
Farið verður yfir umsóknir júní mánaðar í byrjun júlí.

Við vekjum athygli á að þeir sem hefja nám að vori 2016 geta sótt um frá og með 1.október næstkomandi.
Meira ...
22.01.2015 14:34

Ríkissjónvarpið og útsendingar

Stúdentar hafa haft samband vegna útsendinga RÚV. Tengingar við RÚV eru eins hér og í öðrum heimahúsum. Stúdentagarðar eru með loftnet sem taka við sjónvarpssendingum.

Samkvæmt tilkynningu frá RÚV þurfa allir frá og með 2.febrúar að taka sjónvarpsmerkið í gegnum stafræn (e. digital) sjónvarptæki eða í gegnum myndlykil. Því bendum við þeim stúdentum á, sem ekki eiga slík tæki, að fara eftir upplýsingum á heimasíðu RÚV: ruv.is/dreifikerfi/lokanir

 

Meira ...
20.01.2015 11:32

Einingayfirlit á Stúdentagörðum

Þessa dagana er unnið að yfirferð einingafjölda íbúa á Stúdentagörðum, en íbúar þurfa að skila inn ákveðnum einingafjölda að loknu hverju misseri.
Þeir íbúar sem ekki hafa lokið tilskildum einingafjölda hafa fengið bréf þess efnis.

Mikilvægt er að þeir aðilar fylgi upplýsingum í bréfinu svo að hægt sé að vinna þessi mál, jafnt og þétt.

Við bendum svo á, að umsóknir sem bárust um húsnæði nú í janúar eru yfirfarnar í febrúar.

 

Meira ...
22.12.2014 11:46

Jóla-og nýárskveðjur

Við sendum þér ósk um gleðileg jól og farsæld á nýju ári. 
Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða.

Our best wishes for a Merry Christmas and a Happy New Year. 
Thank you for our collaboration in the past year.

Meira ...
05.11.2014 11:05

Umsóknir og skrásetningargjald við HÍ

Búið er að fara yfir umsóknir sem bárust Stúdentagörðum í október mánuði. Nemendaskrá vinnur að því að senda út greiðsluseðla vegna skrásetningargjalds. Þeir sem enn hafa ekki greitt gjaldið við HÍ, geta því sent upplýsingar á starfsfólk Stúdentagarða þegar greiðsla hefur verið innt af hendi og farið verður yfir umsóknir á ný.

Farið verður yfir umsóknir nóvember mánaðar í byrjun desember.

Meira ...
15.09.2014 16:27

Umsóknir nýnema fyrir vorönn 2015

Stúdentagarðar vilja vekja athygli á því að 1. október nk. verður opnað fyrir umsóknir um íbúðir frá nemendum sem eru að hefja nám við Háskóla Íslands á vormisseri 2015. Umsóknum sem berast fyrir þann tíma verður hafnað.

Umsóknir eru sendar inn rafrænt í gegnum www.studentagardar.is en mikilvægt er að muna eftir að haka í hnappinn "nýnemi" sem birtist eftir miðnótt þann 1. október. Ef umsókn er opnuð fyrir miðnætti sér umsækjandi ekki umræddan hnapp.

Einnig viljum við árétta að ofangreint tekur ekki til þeirra sem eru núverandi nemendur við Háskóla Íslands heldur geta þeir sótt um hvenær sem er árs.

Kveðja,

Starfsfólk Stúdentagarða.


Meira ...
25.07.2014 09:52

Haustúthlutun 2014

Úthlutun á stúdentaíbúðum fyrir komandi skólaár er hafin. Til þess að úthlutunin gangi sem best fyrir sig er mikilvægt að umsækjendur svari fljótt hvort þeir hyggist taka húsnæðinu. Sér í lagi þeir sem ætla sér ekki að þiggja úthlutun.

Þeir sem samþykkt hafa úthlutun eru beðnir um að fylgja leiðbeiningum Stúdentagarða og mæta eins fljótt og auðið er á skrifstofu okkar á Háskólatorgi að skrifa undir samning og ganga frá formsatriðum. Þannig gengur ferlið hraðar fyrir alla.

Stúdentagarðar vilja einnig minna á breyttar úthlutunarreglur en samkvæmt þeim hafa umsækjendur nú tvo daga til þess að svara boði um úthlutun en ekki þrjá eins og áður. Að auki gilda neitanir nú þvert á biðlista. Með öðrum orðum fellur umsækjandi út af öllum biðlistum eftir þrjár hafnanir burtséð frá því um hvaða íbúðartegund er að ræða.

Gangi ykkur vel!

Meira ...
01.03.2014 12:23

Háskóladagurinn 2014

Laugardaginn 1. mars er opið hús í Háskóla Íslands.

HÍ býður landsmönnum á öllum aldri í heimsókn þar sem í boði verða ótal viðburðir, kynningar og uppákomur sem sýna vísindin í litríku og lifandi ljósi.

Félagssstofun Stúdenta verður á Háskólatorgi og býður alla velkomna sem vilja kynna sér þjónustu okkar. Þar má nefna Stúdentagarða, Leikskóla Stúdenta, Bóksölu Stúdenta og margt fleira.

Meira ...
03.12.2013 15:27

Úthlutun í desember og janúar

Úthlutun fyrir desember og janúar er hafin.


Þar á meðal eru einstaklingsíbúðir á Sæmundargötu, sem bætast við þær íbúðir sem fyrir eru á háskólasvæði og paríbúðir sem bætast við paríbúðalista.

Til að úthlutun sé skilvirk er mikilvægt að svara eins fljótt og auðið er. Þar með talið þeir sem ekki ætla sér að taka húsnæðinu.


Þeir sem hafa óskað eftir milliflutningi og fá úthlutun eru einnig beðnir um að svara fljótt svo hægt sé að úthluta núverandi húsnæði strax í framhaldinu.


Upplýsingar um húsnæði okkar er að finna undir Íbúðir

Meira ...
07.06.2013 10:11

Umsóknir og biðlistar

Umsóknir sem bárust milli 1-3. júní verða samþykktar um 20. júní. Umsóknir sem berast eftir þann 3. júní verða samþykktar í byrjun júlí

Þar sem endurnýjun samninga við núverandi leigjendur fer ekki fram fyrr en í lok júní er ekki hægt að svara fyrir um biðlista eða líkur á úthlutun eins og stendur.

Haustúthlutun mun hefjast í byrjun júlí og mun standa yfir fram á haust. 

Meira ...
31.05.2013 15:33

Nýjir stúdentagarðar

Í haust verða teknir í notkun nýjir stúdentagarðar, Oddagarðar. Um er að ræða einstaklingsherbergi með  eigin baðherbergi og sameiginlegu eldhúsi. Til að sækja um á nýju görðunum veljið „einstaklingsíbúð“ og „herbergi með sameiginlegri aðstöðu“.  Nánari upplýsingar um íbúðirnar má finna hér.
Meira ...
24.04.2013 09:41

Framlenging leigusamninga fyrir skólaárið 2013-2014

Opnað hefur verið fyrir umsóknir á framlengingu á leigusamningi fyrir skólaárið 2013-2014. Líkt og í fyrra verða leigusamningar framlengdir með rafrænum hætti, eftir vormisseri, þegar einingaskil og námsframvinda liggur fyrir.

Íbúar eru vinsamlega beðnir um að skrá sig inn á mínar síður, velja framhaldsleiga og haka við hvort hvort óskað er eftir endurnýjun eða ekki.

Upplýsingar um hvort íbúar óska eftir endurnýjun samnings fyrir næsta skólaár eða ekki þurfa að liggja fyrir þann 2. maí n.k.

Meira ...
02.04.2013 13:16

Umsækjendur athugið - Staðfesting umsókna í apríl

Vegna erfiðleika með nýtt tölvukerfi Stúdentagarða verður frestur á staðfestingu umsókna framlengdur til 15. apríl. Umsækjendur hafa átt í vandræðum með að skrá sig inn á „Mínar síður“ ásamt því að fá ekki upplýsingar um umsóknir. Unnið er að því að laga þessa villu í kerfinu.
Meira ...
21.03.2013 15:09

Ný heimasíða Stúdentagarða

Nú hefur ný heimasíða Stúdentagarða verið tekin í notkun. Ekki er lengur nauðsynlegt að skrá sig inn með tilvísunarnúmeri til þess að fylgjast með stöðu umsókna heldur þurfa umsækjendur að skrá sig inn á „Mínar síður“ hægra megin í valmyndinni og óska eftir nýju lykilorði. Núverandi íbúar geta gert slíkt hið sama til þess að fá aðgang að "Mínar síður".

ATHUGIÐ að einhverjar truflanir munu verða á síðunni næstu daga.

Meira ...
10.03.2013 10:12

Áframhaldandi uppbygging á Stúdentagörðum

Þann 30. desember s.l. voru opnuð tilboð í nýja stúdentagarða Félagsstofnunar stúdenta við 
Sæmundargötu á Vísindagarðareit. Um er að ræða fjögur hús með tæplega 300 íbúðum fyrir pör og einstaklinga, alls um 12.000 m2, sem rísa munu á reitnum milli Oddagötu, Sturlugötu og Eggertsgötu.


Að undangengnu forvali voru fjórir aðilar valdir til að taka þátt í alútboði en Hornsteinar arkitektar og Sveinbjörn Sigurðsson ehf áttu vinningstillöguna.  
Meira ...
05.03.2013 09:57

Námsframvinda

Samkvæmt úthlutunarreglum Stúdentagarða þurfa íbúar að skila a.m.k. 40 ECTS á skólaárinu (haust- og vormisseri samanlagt) þar af a.m.k. 18 ECTS á haustmisseri til að hafa rétt á áframhaldandi leigusamningi. Eftir haust og vorpróf skoðar skrifstofa Stúdentagarða einingastöðu íbúa og athugar hvort viðkomandi uppfylli tilskilin einingarfjölda. Íbúum er bent á að lesa úthlutunarreglur á heimasíðu Stúdentagarða undir umsókn, reglur.
Meira ...
02.03.2013 09:58

Ekki hylja glugga með svörtu plasti eða slíku

Af gefnu tilefni viljum við benda íbúum á að ekki má nota svarta plastpoka eða annað þess háttar til að byrgja glugga á íbúðum ykkar.


Í sólskini myndast mikill hitamismunur í glerinu og algengt er að rúður springi í gluggum sem eru huldir svörtu plasti.


Íbúar sem að þetta gerist hjá verða gerðir ábyrgir fyrir þeim kostnaði, sem hlýst af því að skipta þarf um gler.
Meira ...