Leigusamningur

Leigusamningur

1. gr. Gildissvið

Samningur þessi (leigusamningurinn) gildir um réttarsamband milli aðila (leigusali og leigutaki) vegna leigu leigutaka á hinu leigða.

Hið leigða er íbúðarhúsnæði til námsmanna í húsnæði sem er eign leigusala og ætlað til búsetu fyrir námsmenn.

Að öðru leyti en greinir í samningi þessum fer um samningssamband aðila samkvæmt húsaleigulögum nr. 36, 1994 með síðari breytingum, úthlutunarreglum Stúdentagarða eins og þær eru á hverjum tíma, gildandi húsreglum fyrir það húsnæði sem um ræðir hverju sinni, auk annarra reglna sem leigusali hefur sett eða kann að setja vegna þess húsnæðis sem um ræðir. Þessar reglur eru hluti af leigusamningnum og standa honum til fyllingar. Leigutaki staðfestir að hafa kynnt sér þessar reglur fyrir undirskrift leigusamningsins. Frávik frá ákvæðum laga nr. 36, 1994 í samningnum styðjast við 3. mgr. 2. gr. og 3. gr. a. þeirra laga

 

2. gr. Leigutími

Leigusamningur þessi er tímabundinn: Leigutímabilið hefst þann xx og lýkur þann xx

Leigusamningurinn er bindandi fyrir báða aðila út leigutímabilið, sem felur í sér að leigutaka er skylt að greiða leigugjaldið allan leigutímann og leigusala er skylt að leigja leigutaka hið leigða til sama tíma, nema til komi ástæður sem heimila leigusala að rifta eða segja upp samningnum. Leigutaki (nema þeir sem eru með leigu á Gamla garði í herbergjum 102-130, 201-230 og 301-327) getur þó alltaf sagt upp samningnum hvenær sem er með þriggja mánaða uppsagnarfresti, sem tekur gildi frá og með næstu mánaðamótum. Uppsagnir með lengri uppsagnarfresti eru ekki teknar gildar.

Aðilar geta orðið ásáttir um að endurnýja leigusamninginn að loknu leigutímabilinu. Nýr samningur gildir þá fyrir sama tímabil næsta árs á eftir, nema aðilar verði ásáttir um annað leigutímabil. Skilyrði þess að leigutaka sé unnt að endurnýja leigusamninginn er að hann uppfylli skilyrði úthlutunarreglna Stúdentagarða, hafi staðið í skilum með leigugreiðslur, sé ekki í skuld við aðrar deildir Félagsstofnunar stúdenta, hafi ekki gerst sekur um vanefndir eða brot sem varðað geti uppsögn eða riftun leigusamningsins eða að öðru leyti vanefnt skyldur sínar á þann veg eða sýnt af sér slíka háttsemi að eðlilegt megi telja að leigusali vilji ekki leigja honum áfram. Leigusali skal tilkynna leigutaka með eins mánaðar fyrirvara ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði til áframhaldandi leigu og um ástæður þess. Sé samningi rift af hálfu leigusala, sbr. 12. gr., ber leigutaka eftir að hafa fengið tilkynningu þar um að rýma hið leigða þegar í stað.

Um endurnýjun leigusamningsins er vísað til úthlutunarreglna á heimasíðu leigusala, www.studentagardar.is. Verði leigusamningurinn endurnýjaður gilda öll ákvæði þessa samnings að undanskildu breyttu leigutímabili, nema samið hafi verið um annað. Beiðni um framlengingu verður leigutaki að setja fram a.m.k. þremur mánuðum áður en upphaflegu leigutímabili lýkur. Það sama gildir í hvert skipti sem leigutaki setur fram beiðni um endurnýjun leigusamnings. Leigutaki hefur að loknum umsömdum leigutíma ekki forgangsrétt til leigu, ef hann uppfyllir ekki lengur kröfur úthlutunarreglna Stúdentagarðanna, sbr. 12. mgr. 51. gr. húsaleigulaga nr. 36, 1994.

 

3. gr. Leigufjárhæð

Fjárhæð leigugjaldsins er sem hér segir: xx

Leigugjaldið er bundið vísitölu neysluverðs (stig), (dags) (xx) (xx) til verðtryggingar samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands og er hún grunnviðmiðun við útreikning á fjárhæð leigugjaldsins. Breytist leigugjaldið því í réttu hlutfalli við mánaðarlegar breytingar á vísitölunni. Mánaðarlegt gjald í hússjóð tekur breytingum samkvæmt ákvörðun leigusala. Orkuverð breytist til samræmis við breytingar á orkuverði hjá því veitufyrirtæki sem leigusali skiptir við hverju sinni. Aðrir kostnaðarliðir taka breytingum skv. ákvörðun leigusala. Leigusali áskilur sér rétt til þess að  hækka umsamda leigufjárhæð umfram almenna hækkun vísitölu neysluverðs í september ár hvert. Fyrir því verða þó að liggja málefnalegar ástæður sem upplýsa skal leigutaka um. Komi til þess skal tilkynna um hækkun með minnst þriggja mánaða fyrirvara.

Auk leigugjalds og gjalds í hússjóð skal leigutaki greiða leigusala sérstakt umsýslugjald samkvæmt gjaldskrá leigusala, sem nú er kr. 4.000, vegna úthlutunar á húsnæðinu. Umsýslugjaldið greiðist bæði við fyrstu úthlutun og við hverja framlengingu leigusamningsins og er innheimt með fyrstu húsaleigugreiðslu hvers samningstímabils.

Leigugjald greiðist mánaðarlega og er gjalddagi þess fyrsti dagur hvers mánaðar.

Leigugjaldið er innheimt rafrænt og birtast greiðsluseðlar í heimabanka leigutaka og skulu greiðast þar. Óski leigutaki eftir að fá senda greiðsluseðla skal hann bera þann kostnað sem af því hlýst. Standi leigutaki ekki skil á greiðslu leigugjaldsins fyrr en eftir eindaga er leigusala heimilt að krefjast hæstu lögleyfðu dráttarvaxta frá gjalddaga til greiðsludags. Þá er leigutaki einnig ábyrgur fyrir greiðslu alls annars kostnaðar sem af vanskilum hans kann að leiða.

 

4. gr. Trygging

Leigusala er heimilt að krefjast þess að leigutaki setji tryggingu, sem leigusali metur gilda og fullnægjandi, fyrir réttum efndum á leigusamningnum, þ.m.t. fyrir leigugreiðslum og skaðabótum vegna tjóns á hinu leigða sem leigutaki ber ábyrgð á samkvæmt almennum reglum og ákvæðum laga þar um.

Tryggingar krafist ( ) Tryggingar ekki krafist ( )

Form tryggingar: _______________ Fjárhæð tryggingar: _______________ kr.

 

5. gr. Rekstrarkostnaður

Um skiptingu rekstrarkostnaðar hins leigða og umhirðu að öðru leyti en greinir hér að neðan, sbr. og 8. gr., fer eftir V. kafla húsaleigulaga nr. 36, 1994. Sá kostnaður sem leigutaka ber að greiða er innheimtur um leið og leigugjaldið.

Leigutaki greiðir sérstaklega fyrir notkun rafmagns og heits vatns. Leigusali innheimtir slíkan kostnað um leið og húsaleigu og sér um greiðslur til veitustofnana. Er leigusala heimilt að leggja áætlanir veitustofnana til grundvallar innheimtunni, en að öðru leyti eru greiðslur leigutaka vegna orku innheimtar í samræmi við reikninga veitustofnana hverju sinni. Leigusala er heimilt að innheimta aukagjald ef leigutaki notar mjög orkufrek tæki, t.d. frystikistu og leiðrétta innheimtan orkukostnað eftir á í samræmi við leiðréttingar frá veitustofnun. Leigusali getur einnig innheimt annan útlagðan kostnað vegna húsnæðisins, þ.m.t. ef brunaviðvörunarkerfi fer í gang, vegna athafna eða athafnaleysis leigutaka.

Leigutaka er skylt að annast ræstingu og sameiginlega umhirðu sameignar á móti öðrum leigutökum í  húsnæðinu, allt samkvæmt ákvæðum gildandi húsreglna og fyrirmælum umsjónarmanns fasteigna Stúdentagarða. Er leigutaka m.a. skylt að taka þátt í allsherjarhreingerningu á húsnæðinu og lóð þess. Vanræki leigutaki verkskyldur sínar samkvæmt grein þessari, getur leigusali, auk annarra úrræða, látið framkvæma verkin á kostnað leigutaka og innheimt kostnaðinn með leigunni.

 

6. gr. Ástand og afhending hins leigða

Að öðru leyti en fram kemur hér að neðan gilda ákvæði III. kafla húsaleigulaga nr. 36, 1994 um ástand hins leigða við afhendingu þess, sbr. einnig úthlutunarreglur leigusala og gildandi húsreglur.

Hið leigða skal afhent á upphafsdegi leigusamnings samkvæmt 2. gr. og fær leigutaki þá afhenta lykla að hinu leigða. Við afhendingu fær leigutaki úttektarblað þar sem hann getur skráð athugasemdir við ástand hins leigða húsnæðis. Leigutaki skal koma úttektarblaðinu til skila innan 7 daga frá viðtöku húsnæðisins. Ofangreinda úttekt skal leggja til grundvallar ef ágreiningur verður um bótaskyldu leigjanda við skil húsnæðisins. Sætti annar aðili sig ekki við það getur hann á eigin kostnað óskað eftir úttekt samkvæmt XIV. kafla húsleigulaga nr. 36, 1994. Sé hið leigða ekki í því ástandi sem leigusamningur greinir eða leigutaki hlaut að mega gera ráð fyrir, skal leigutaki gera skriflegar athugasemdir innan einnar viku frá afhendingu og segja til um hverra úrbóta sé krafist.

Leigusala er heimilt að draga afhendingu húsnæðisins í allt að 14 daga ef nauðsynlegt reynist að framkvæma viðgerðir eða úrbætur á hinu leigða til að koma því í leiguhæft ásigkomulag. Leigutaki á ekki rétt á afslætti af leigugreiðslu ef afhending dregst í fimm daga eða skemur

 

7. gr. Viðhald

Leigusali skal að jafnaði halda hinu leigða í leiguhæfu ástandi, allt eftir því sem góðar venjur um viðhald húsnæðis segja til um. Leigutaki á ekki rétt á afslætti eða bótum vegna afnotamissis sem hlýst af viðhaldsvinnu, nema viðhaldsvinnan leiði til verulega skertra afnota eða afnotamissis. Leigusali skal láta vinna alla viðgerðar- og viðhaldsvinnu fljótt og vel og þannig að sem minnst röskun hljótist af. Ef nauðsyn krefur er leigutaka skylt að rýma húsnæðið á meðan viðgerð fer fram og á leigutaki ekki rétt til afsláttar af leigunni ef afnotamissirinn varir skemur en fimm daga. Leigutaki á ekki rétt á afslætti eða annars konar bótum vegna ónæðis sem hlýst af viðhaldsvinnu á öðrum íbúðum í húsnæðinu, nema sú viðhaldsvinna leiði til verulega skertra afnota eða afnotamissis samkvæmt mati úttektaraðila, sbr. 21. gr. húsaleigulaga nr. 36, 1994. Í þeim tilvikum þegar hið leigða er á byggingarsvæði kann ónæði að fylgja framkvæmdum og á leigutaki ekki rétt á afslætti eða annars konar bótum vegna þess.

Við gagngerar endurbætur á húsnæði hefur leigusali heimild til að segja samningnum upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti, náist ekki samkomulag við leigjanda um flutning í aðra íbúð, meðan á framkvæmdum varir.

Leigutaki skal tafarlaust segja til um galla eða önnur atriði, sem þarfnast lagfæringa eða viðgerða og ekki voru sýnileg við venjulega athugun og/eða komu ekki fram við afhendingarúttekt. Sama gildir ef gallar eða viðgerðaþörf, hvort sem innan- eða utanhúss, kemur síðar fram á leigutímanum, bæði hvað varðar hið leigða sjálft og búnað þess sem og húsnæðið þar sem hið leigða er staðsett, enda er leigusali tilkynningarskyldur gagnvart tryggingarfélagi sínu. Vanræki leigutaki tilkynningarskyldu sína samkvæmt framansögðu falla hugsanlegar bótakröfur hans niður og er hann þá einnig ábyrgur fyrri því tjóni sem af vanrækslu hans eða seinkun kann að leiða.

Að öðru leyti en að ofan greinir fer um viðhald hins leigða, þ.m.t. um réttindi og skyldur hvor aðila samningsins um sig að þessu leyti, eftir ákvæðum IV. kafla húsaleigulaga nr. 36, 1994.

 

8. gr. Afnot af hinu leigða, aðgangur leigusala að hinu leigða o.fl.

Hið leigða er einungis ætlað til íbúðar fyrir þann/þá leigutaka sem tilgreindur/tilgreindir er/eru í samningi þessum og er hið leigða á ábyrgð hans/þeirra allan leigutímann. Óheimilt er með öllu að nota hið leigða á annan hátt en samið er um í samningi þessum og fram kemur í þeim lögum og reglum sem gilda um samningssamband aðila.

Leigutaka er með öllu óheimilt að gera breytingar eða endurbætur á hinu leigða eða búnaði þess. Leigutaka er óheimilt að festa nagla, skrúfur, króka og annað þess háttar í eða á veggi, gluggakarma, hurðir eða dyr hins leigða. Óheimilt er að festa nokkuð í rúður íbúðar, hvort sem er að innan eða utan – annað en gluggatjöld/gardínur. Þá er leigutaka óheimilt að skipta um læsingar á hinu leigða. Geri leigutaki nokkuð í bága við bann þetta getur leigusali krafið hann um kostnað við að koma hinu leigða eða þeim búnaði sem um ræðir í fyrra horf. Telji leigutaki þörf á lagfæringum á innanstokksmunum hins leigða skal hann tilkynna leigusala um það í samræmi við skyldur sínar samkvæmt 15. gr. samnings þessa. Leigutaka er heimill aðgangur og afnot af sameign húsnæðisins að gættum þeim húsreglum sem í gildi eru og öðrum almennum reglum þar um.

Leigusali á rétt á aðgangi að hinu leigða með hæfilegum fyrirvara og í samráði við leigutaka til að láta framkvæma úrbætur á hinu leigða og til eftirlits með ástandi þess og meðferð. Á síðustu sex mánuðum leigutímabils, hvort sem um er að ræða leigutímabil upphaflegs leigusamnings eða endurnýjaðs leigusamnings, sbr. 2. gr. samnings þessa, er leigusala heimilt að sýna væntanlegum kaupendum eða leigjendum hið leigða, en þó ekki meira en tvær klukkustundir á dag. Tilkynna skal um slíka heimsókn með minnst sólarhrings fyrirvara og skal leigutaki eða umboðsmaður hans jafnframt vera viðstaddur. Leigusala er enn fremur heimilt að benda hugsanlegum leigutökum á að hafa samband við leigutaka í því skyni að skoða hið leigða. Er leigutaka skylt að sjá til þess að sú skoðun geti farið fram innan tveggja daga frá því að óskað var eftir henni.

 

9. gr. Umgengni

Leigutaka og fólki á hans vegum er skylt að sýna öðrum íbúum húsnæðisins tillitssemi í allri umgengni og notkun hins leigða og gæta þess að raska ekki eðlilegum afnotum, starfsró og svefnfriði annarra íbúa húsnæðisins eða valda þeim óþægindum eða ónæði. Leigutaka er skylt að hlíta þeim húsreglum sem í gildi eru fyrir húsnæðið á hverjum tíma, sem og öðrum reglum sem leigusali hefur sett eða kann að setja, enda eru slíkar reglur hluti af samningi aðila, sbr. 1. gr. Leigutaka er með öllu óheimilt að  halda gæludýr, þ.m.t. hunda, ketti, fugla eða nagdýr, til styttri eða lengri tíma, nema húsreglur kveði á um annað. Reykingar og notkun rafretta eru með öllu óheimilar í hinu leigða, jafnt í íbúðum/herbergjum sem og sameign húsnæðisins. Öll meðferð fíkniefna er stranglega bönnuð, auk annarrar refsiverðrar háttsemi. Þar sem eru bílastæði í bílakjöllurum er óheimilt að geyma ógangfærar eða óskráðar bifreiðar. Leigutaki hefur ásamt öðrum leigutökum rétt til afnota af sameign húsnæðisins og sameiginlegum búnaði þess, þ.m.t. þvottahúsi, eftir því sem mælt er fyrir um í húsreglum. Hyggist leigutaki og fjölskylda hans vera fjarverandi úr hinu leigða í lengri tíma en 10 daga skal hann tilkynna það til leigusala.

Leigutaka er skylt að sjá til þess að heimilisfólk hans og gestir virði reglur um umgengni, auk annarra reglna, sem ber að fylgja. Leigutaki skal bæta það tjón á hinu leigða eða fylgifé þess, sem verður af völdum hans sjálfs, heimilismanna hans, gesta eða annarra manna sem hann hefur leyft afnot af hinu leigða eða umgengni um það.

 

10. gr. Framleiga

Leigutaka er með öllu óheimilt án skriflegs samþykkis leigusala að framleigja leigurétt sinn eða hið leigða eða hluta þess án leyfis leigusala, hvort sem slíkt er gert gegn gjaldi eður ei. Nær það bann einnig til þess að heimila nákomnum skyldmennum eða venslamönnum búsetu í hinu leigða. Leigutaka er óheimilt að skipta um eða semja um skipti á hinu leigða við annan leigutaka innan Stúdentagarða nema að fengnu samþykki leigusala. Óski leigutaki eftir flutningi innan Stúdentagarða skal hann sækja um flutning samkvæmt úthlutunarreglum leigusala á vef hans, www.studentagardar.is. Komi til flutnings skal leigutaki greiða sérstakt milliflutningsgjald samkvæmt gjaldskrá leigusala.

 

11. gr. Uppsögn

Leigusamningar á Gamla Garði eru án uppsagnarákvæða og gilda út skilgreint leigutímabil, nema í herbergjum 010-020, 231-244 og 331-344 þar sem leigusamningar eru með uppsagnarákvæði.

Uppfylli leigutaki ekki lengur skilyrði úthlutunarreglna Stúdentagarða eða vanefni að öðru leyti skyldur sínar samkvæmt samningi þessum, er leigusala heimilt að rifta samningnum. Er leigutaka þá skylt að rýma hið leigða. Ef um smávægileg brot að mati leigusala er að ræða gagnvart samningnum eða ákvæðum úthlutunarreglna, skal skora á leigutaka að bæta úr, áður en riftun er beitt.

Um húsnæði Stúdentagarða utan Gamla Garðs gildir að leigutaka er heimilt að segja upp samningi þessum og skila hinu leigða áður en leigutíminn er útrunninn. Leigutaki getur sagt upp samningnum með þriggja mánaða fyrirvara. Uppsögn skal gerð með skriflegri tilkynningu sem send er leigusala með þriggja mánaða fyrirvara. Uppsagnir með lengri fyrirvara eru ekki teknar gildar. Skal slík uppsögn fara fram á þar til gerðu eyðublaði á heimasvæði Stúdentagarða, www.studentagardar.is.

 

12. gr. Riftun

Leigusala er heimilt í eftirfarandi tilvikum að rifta samningi þessum með skriflegri og rökstuddri tilkynningu áður en leigutíminn er útrunninn og er leigutaka þá skylt að rýma hið leigða að kröfu leigusala þegar í stað eftir að slík tilkynning er send:

1. Leigutaki greiðir ekki umsamið leigugjald, hússjóðsgjald eða önnur gjöld samkvæmt samningi þessum á réttum gjalddaga og sinnir ekki innan sjö sólarhringa skriflegri áskorun um greiðslu, enda hafi slík áskorun verið send eftir gjalddaga og leigusali þar tekið fram að hann muni beita riftunarheimild sinni.

2. Leigutaki uppfyllir ekki lengur skilyrði úthlutunarreglna Stúdentagarða.

3. Leigutaki brýtur ítrekað eða gróflega gegn þeim húsreglum sem gilda fyrir hið leigða og viðkomandi húsnæði á hverjum tíma.

4. Leigutaki nýtir húsnæðið á annan hátt en lög eða leigusamningur þessi mælir fyrir um og lætur ekki af misnotkun þess þrátt fyrir skriflega áminningu leigusala.

5. Leigutaki framselur leigurétt sinn í andstöðu við ákvæði laga eða leigusamnings þessa eða misnotar heimild sína til framleigu.

6. Leigutaki meinar leigusala eða öðrum aðgang að hinu leigða án gildrar ástæðu.

7. Leigutaki flyst úr hinu leigða áður en leigutíma er lokið án þess að hafa gert nauðsynlegar ráðstafanir til gæslu eða verndar þess.

8. Hið leigða spillist í umsjá leigutaka vegna slæmrar umgengni eða hirðuleysis hans eða þeirra, sem hann ber ábyrgð á, og hann sinnir ekki án tafar kröfu um úrbætur.

9. Leigutaki hættir námi á leigutímanum.

10. Leigutaki vanrækir, þrátt fyrir áminningu leigusala, skyldur sínar til að sjá um að góð regla og umgengni haldist í hinu leigða húsnæði eða gerist sekur um persónulega meingerð gagnvart leigusala eða öðrum leigutökum eða gestum í húsnæðinu.

11. Leigutaki, gestir hans eða aðrir, sem hann ber ábyrgð á, gerast sekir um neyslu, vörslu, sölu, kaup eða hvers konar meðferð fíkniefna í hinu leigða eða sameign húsnæðisins eða lóð þess.

12. Leigutaki vanrækir að öðru leyti skyldur sínar samkvæmt lögum eða leigusamningi þessum á svo stórfelldan hátt að rýming hans úr húsnæðinu telst eðlileg eða nauðsynleg.

13. Ef í ljós kemur að hann hefur gefið rangar upplýsingar um hagi sína er máli skipta við úthlutun á hinu leigða honum til handa.

 

13. gr. Breyttar forsendur

Leigusamningur þessi fellur úr gildi ef hið leigða eyðileggst af völdum elds eða af öðrum ástæðum, hvort sem það gerist fyrir eða eftir að leigutaki hefur tekið við hinu leigða. Leigutaki á í slíkum tilvikum ekki rétt til neinna bóta úr hendi leigusala nema eyðileggingin sé sök leigusala sjálfs eða hann vanrækir að gera leigutaka viðvart um hana.

Leigutaki sá, sem ekki er jafnframt námsmaður í Háskóla Íslands, hefur ekki við lok hjónabands eða sambúðarslit við leigutaka eða andlát leigutaka rétt til yfirtöku á samningi þessum eða áframhaldandi leigu. Leigutaki sem þannig háttar til um, skal þá rýma hið leigða eins fljótt og aðstæður leyfa en þó aldrei síðar en þremur mánuðum frá lokum hjónabands, sambúðarslitum eða andláti. Ákvæði 1. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 46. gr. húsaleigulaga nr. 36, 1994 gilda því ekki um leigusamning þennan

 

14. gr. Lok leigutíma

Leigusamningi þessum lýkur á umsömdum degi, sbr. 2. gr., án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila og skal leigutaki skila hinu leigða þann dag fyrir kl. 10:00. Hafi leigusamningurinn verið endurnýjaður í samræmi við ákvæði 2. Gr. lýkur samningnum á þeim degi er nýju samningstímabili lýkur. Skili leigutaki ekki hinu leigða á tilsettum tíma er leigusala heimilt að heimta bætur sem jafngilda hálfri mánaðarleigu ef dráttur varir í eina viku eða skemur. Dragist skil lengur skuldbindur leigutaki sig til að greiða leigusala bætur sem jafngilda þrefaldri leigu fyrir hvern dag sem skil dragast, auk alls kostnaðar sem leigusali kann að verða fyrir vegna þessa.

 

15. gr. Ástand og skil hins leigða við lok leigutíma

Að leigutíma loknum, sbr. ákvæði 2. Og 14. Gr., skal leigutaki skila hinu leigða í hendur leigusala ásamt tilheyrandi fylgifé í sama ástandi og hann tók við því. Ber leigutaki óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun hins leigða eða spjöllum á því að svo miklu leyti sem slíkt telst ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar hins leigða eða stafar af atvikum sem voru leigutaka sannanlega óviðkomandi. Leigutaki ber óskerta bótaábyrgð ef umgengni hans um veggi eða loft hins leigða hefur verið með þeim hætti að nauðsynlegt er að endurmála veggi þess eða loft að hluta eða öllu leyti.

Eftir skil á lyklum af hinu leigða húsnæði framkvæmir leigusali úttekt á húsnæðinu og hefur til hliðsjónar úttekt leigjanda við innflutning. Ef þrif reynast ekki fullnægjanleg verður íbúðin þrifin af ræstingafyrirtæki, sem leigutaki greiðir fyrir í samræmi við útlagðan kostnað.

Ef samningsaðilar eru ekki sammála um ástand hins leigða, þ.m.t. þrif, skemmdir á því eða tjón, er heimilt að kalla til annan fulltrúa leigusala til að skera úr ef aðilar eru ásáttir um það. Verði ágreiningur um tjón eða fjárhæð bóta er heimilt að kalla til úttektarmann samkvæmt XIV. kafla húsaleigulaga nr. 36, 1994 til að meta tjónið til fjár eða fá samþykkt fyrir kostnaði hafi viðgerð þegar verið framkvæmd. Sá samningsaðili sem biður um slíka úttekt ber af henni allan kostnað.

Afhendingarúttekt skal leggja til grundvallar ef til ágreinings kemur um skemmdir eða bótaskyldu leigutaka við skil hins leigða. Leigusali skal beina bótakröfu að leigutaka innan tveggja mánaða frá skilum hins leigða. Leigutaka er skylt að tilkynna leigusala um nýtt heimilisfang áður en hann flytur og skal tilkynningum samkvæmt þessari grein beint þangað. Að öðrum kosti framlengist upphaf tilkynningarfrestins samkvæmt framansögðu til þess tíma er leigusali fékk vitneskju um nýtt aðsetur leigutaka.

 

16. gr. Ýmis ákvæði

Leigutaka er skylt að taka þátt í húsfélagi sé það starfrækt í viðkomandi húsnæði. Er öllum íbúum húsnæðisins skylt að fylgja húsreglunum og teljast slíkar húsreglur hluti af samningi þessum, sbr. 1. gr.

Leigusali ber enga ábyrgð á rakaskemmdum eða einhverjum göllum, séðum eða óséðum, þ.m.t. á húsbúnaði, innbúi, fatnaði og skóm leigutaka. Leigutaki ber ábyrgð á þeim kjósi hann að flytja inn. Leigutaka er bent á úrræði sín og að segja upp húsaleigusamningnum telji hann sig eða fjölskyldu sína verða veika vegna þessa.

Komi til framleigu hins leigða sem alltaf er háð samþykki leigusala gilda ákvæði þessa samnings um réttarsamband framleigutaka og leigusala.

Umsjón fasteigna er tengiliður milli leigutaka og leigusala og fylgist bæði með ástandi hins leigða sem og ástandi og búnaði húsnæðisins. Umsjón fasteigna tekur á móti beiðnum leigutaka um viðhald og endurbætur og sér jafnframt um framkvæmd þeirra. Þá er Umsjón fasteigna jafnframt fulltrúi leigusala við afhendingu og skil á hinu leigða. Hann tekur einnig á móti kvörtunum vegna brota á húsreglum og leitast við að leysa slík mál.

Þegar leigutakar eru fleiri en einn bera þeir óskipta ábyrgð á öllum skyldum leigutaka gagnvart leigusala samkvæmt samningi þessum, þ.m.t. greiðslu leigugjalds.

Leigutakar skulu kynna sér sérstaklega brunakerfi húsa og fylgja leiðbeiningum um brunakerfi í hvívetna. Leiðbeiningar má finna í öllum íbúðum og herbergjum. Eigi íbúar við skynjara svo það hafi áhrif á brunaboða í húsnæði Stúdentagarða lendir kostnaður við lagfæringar og eftir atvikum útkall alfarið á viðkomandi íbúa. Umsjón með kerfum og viðgerð er einungis í höndum öryggisþjónustu og fer kostnaður eftir gjaldskrá viðkomandi fyrirtækis hverju sinni. Íbúum er ekki heimilt að sinna lagfæringum á kerfinu til að forðast/takmarka kostnað ef átt hefur verið við kerfið á annan hátt en leiðbeiningar sýna.

Ef viðvörunarkerfi fer í gang vegna atvika er má rekja til leigutaka, hvort sem er vegna athafna eða athafnaleysis, skal hann greiða allan kostnað vegna þess, þ.m.t. en ekki tæmandi kostnað vegna útkalls öryggisfyrirtækis.

Greini aðila leigusamnings þessa á um gerð eða framkvæmd hans geta þeir leitað til Kærunefndar húsaleigumála samkvæmt 85. gr. húsaleigulaga nr. 36, 1994 og óskað eftir áliti nefndarinnar um ágreiningsefnið. Heimild til að leita álits kærunefndarinnar skerðir ekki rétt aðila til að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla. Dómsmál vegna samnings þessa skal rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Samningur þessi er gerður í tveimur samhljóða eintökum og heldur hvor aðili um sig sínu eintaki.

Með undirritun sinni staðfestir leigutaki að hann hafi kynnt sér ákvæði samnings þessa, sem hann samþykkir í einu og öllu, húsaleigulög nr. 36, 1994, úthlutunarreglur Stúdentagarða og þær húsreglur sem um hið leigða gilda, sbr. 1. gr. samnings þessa. Leigutaki veitir leigusala leyfi til að sannreyna þær upplýsingar sem leigutaki lætur í té og samþykkir að þær upplýsingar sem leigutaki veitir og þær upplýsingar sem verða til í samskiptum og í búsetu á Stúdentagörðum séu eign leigusala.