Framkvæmdaáætlun

Framkvæmdaáætlun

FRAMKVÆMDAÁÆTLUN STÚDENTAGARÐA ER BIRT MEÐ FYRIRVARA UM BREYTINGAR
Framkvæmdaáætlun tiltekur stærri viðhalds- og breytingaverkefni Stúdentagarða en ekki almennt viðhald og ýmis minni verkefni sem eru hluti af daglegum rekstri eða taka skamman tíma. Reynslan kennir að smá verkefni geta vaxið að umfangi og þ.a.l. má alltaf gera ráð fyrir að ekki verði hægt að tiltaka allar framkvæmdir í yfirliti sem þessu. Framkvæmdaáætlun tiltekur ekki framkvæmdir við nærliggjandi hús og götur, framkvæmdir á vegum annarra aðila s.s. veitufyrirtækja eða Reykjavíkurborgar. Það hvílir engin tilkynningaskylda á nágrönnum Stúdentagarða gagnvart stúdentum umfram það sem lög tilgreina s.s. varðandi hávaða á prófatíma. 

 

HJÓNAGARÐAR
Eggertsgata 2-4. Ekki eru fyrirhugaðar framkvæmdir í húsinu á næstunni.

Íbúar á Hjónagörðum eru beðnir um að kynna sér framkvæmdaáætlun Vísindagarða (sjá neðar) og annarra húsa s.s. Vetrargarðs.

 

VETRARGARÐUR
Eggertsgata 6-10. Heildarendurnýjun á Vetrargarði er komin af stað, á næstu tveimur og hálfu ári verður allt húsið endurnýjað (verklok u.þ.b. september 2023). Mun það hafa rask í för með sér fyrir þá íbúa sem koma til með að búa í húsinu meðan á verkefninu stendur. Áætlun gerir ráð fyrir að hluti hússins verði tæmdur hverju sinni til að auðvelda og flýta verkinu og létta álagi af íbúum.  Þakið verður jafnframt endurnýjað.

Íbúar á Vetrargarði eru einnig beðnir um að kynna sér framkvæmdaáætlun Vísindagarða (sjá neðar) og næstu húsa s.s. Ásgarða.

 

ÁSGARÐAR 
Eggertsgata 12-34. Á næstu árum stendur til að taka í gegn þök húsanna á Ásgörðum (Eggertsgata 12-34). Þök húsa 12-14 og 16-18 verða endurnýjuð sumarið 2021 og mars/apríl 2022. Ekki stendur til að fara í endurnýjun á þaki Eggertsgötu 24 sem er yngra hús en önnur í hverfinu.

Við Eggertsgötu 12 er gert ráð fyrir að byggja við og stækka leikskólann Leikgarð, er verkefnið í deiliskipulagsferli.

Við Eggertsgötu 24 er ráðgert að stækka verslunina og fá inn lágvöruverslun í stað Háskólabúðarinnar. Í garðinum bak við Eggertsgötu 20-28 er svo gert ráð fyrir að byggja þjónustuhús fyrir FS og samkomusal fyrir íbúa á Ásgörðum, eru þessi verkefni í deiliskipulagsferli.

Tími er kominn á að einstaka íbúðir verða endurnýjaðar, mun sú vinna fara fram samhliða leiguskiptum eftir því sem ástæða er til hverju sinni.

Stemmt er að því að framkvæma ástandsúttekt á öllum húsum Ásgarða (Eggertsgata 12-34) og í framhaldinu má gera ráð fyrir að ráðist verði í eitthvað viðhald á húsunum að utan. Verður framkvæmdaáætlun uppfærð m.t.t. þessa þegar úttektir hafa verið framkvæmdar og ákvörðun um viðhald liggur fyrir. Íbúar á Ásgörðum eru einnig beðnir um að kynna sér framkvæmdaáætlun Vísindagarða (sjá neðar). 

 

SKERJAGARÐUR
Suðurgata 121. Sumarið 2022 verður húsið sílanborið að utanverðu og gluggalekar í stigahúsum lagfærðir. Einnig verður þakið yfirfarið og málað.

 

ODDAGARÐAR
Sæmundargata 14-20. Fara þarf í ýmislegt viðhald á þökum Oddagarða á næstu árum. Einnig þarf að fara í almennt viðhald á stigahúsum og svalagöngum húsanna. Mun verkið hefjast í mars 2022 en nákvæm tímaáætlun og þ.a.l. verklok liggja ekki fyrir.

Framkvæmdir eru í fullum gangi á vegum Alvogen/Alvotech við stækkun fyrirtækisins. Reikna má með að verkið taki rúm tvö ár og ljúki u.þ.b. í árslok 2022. Gera má ráð fyrir umferðartöfum og ónæði á öllu tímabilinu.

Íbúar á Oddagörðum eru beðnir um að kynna sér framkvæmdaáætlun Vísindagarða (sjá neðar).

 

MÝRARARÐUR
Sæmundargata 21. Mýrargarður opnaði í janúar/febrúar 2020. Framkvæmdum við húsið sjálft á vegum FS er lokið. Á næstu lóðum eru fyrirhugaðar fjölmargar framkvæmdir sem munu hafa áhrif á íbúa ná næstu árum. 

Framkvæmdir eru í fullum gangi á vegum Alvogen/Alvotech við stækkun fyrirtækisins. Reikna má með að verkið taki rúm tvö ár og ljúki u.þ.b. í árslok 2022. Gera má ráð fyrir umferðartöfum og ónæði á öllu tímabilinu.

Íbúar á Mýrargarði eru beðnir um að kynna sér framkvæmdaáætlun Vísindagarða (sjá neðar).

 

GAMLI GARÐUR
Hringbraut 29-31. Framkvæmdum við Gamla garð er að mestu lokið en einhver frágangsvinna verður í gangi næstu vikur. Fara á í smá endurbætur á gamla húsinu eftir nk. áramót (þ.e. janúar - apríl 2022) s.s. eins og pússa upp parket í stigahúsi og lakka, skipta um hurðar á eldhúsum og fleiri smærri verk. 

Einnig verður unnið að undirbúningsvinnu vegna endurnýjunar á eldhúsum sem farið verður í þegar allir íbúar hafa flutt út í maí. Mun þessi undirbúningsvinna ekki hafa teljandi áhrif á íbúa. Öll vinna fer fram á almennum vinnutíma frá kl. 08:00 - 18.00 virka daga. 

 

SKUGGAGARÐAR
Lindargata 42-46A. Fyrirhugað er að rífa Lindargötu 44 og byggja nýtt hús með um 10 útleigueiningum og samkomusal fyrir alla íbúa Skuggagarða, ásamt því að breyta sorpaðstöðu og koma fyrir djúpgámum framan við húsið á Lindargötu. Einnig er fyrirhugað að byggja tvö ný hús á lóðinni við Vatnsstíg og klára lóðina sjálfa.

Rifi og jarðvinnu við Lindargötu 44 á að ljúka í júlí 2022 og hefst þá uppbygging nýrrar byggingar. Sá hluti verks á að taka um 12-14 mánuði frá því að jarðvinnu lýkur og ætti að klárast í kringum ágúst 2023. Lóðaframkvæmdir verða unnar samhliða uppbyggingu og í 1-2 mánuði eftir að byggingarframkvæmdum lýkur. Lóðin við Lindargötu 42 verður þó ekki fullkláruð þar sem einnig er fyrirhugað að byggja þar tvö ný hús á lóðinni við Vatnsstíg. Tímasetning á því verki liggur ekki fyrir sem stendur.


Framkvæmdirnar munu óhjákvæmilega hafa áhrif á íbúa Skuggagarða. Öll bílastæði Skuggagarða verða tekin úr umferð á framkvæmdartíma og eftir að framkvæmdum lýkur vera þau aðeins um tíu talsins. Einhver hávaði mun óhjákvæmilega verða á dagvinnutíma á virkum dögum (07:00-18:00), sérstaklega á  meðan jarðvinnu, uppbyggingu hússins og frágangi utandyra stendur. Áhersla verður þó lögð á að klára húsið að utan sem fyrst og grófjafna lóð til að létta á svæðinu.

 

SKÓGARGARÐAR
Skógarvegur 18-22. Gert er ráð fyrir að byggja yfir sorpgeymslur á lóð og uppfæra tunnusamsetningu til að taka á sorpmálum.  Verður þetta gert á tímabilinu janúar - mars 2022. 

Lýsing í inngörðum verður endurnýjuð haustið 2021 og önnur útilýsing í framhaldinu.

 

SKJÓLGARÐUR
Brautarholt 7. Engar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á vegum Stúdentagarða.

 

VÍSINDAGARÐAR
Hlutverk Vísindagarða Háskóla Íslands er að vera alþjóðlega viðurkenndur vettvangur tækni- og þekkingarsamfélags á Íslandi sem á virkan hátt hlúir að og tengir saman frumkvöðla, fyrirtæki, háskóla, stofnanir og aðra hagsmunaaðila sem vinna að því að stórefla hagnýtingu rannsókna, nýsköpun og viðskiptaþróun til hagsældar og heilla fyrir land og þjóð (tekið af heimasíðu verkefnisins). 

Ýmsar framkvæmdir fara nú fram á Vísindagarðasvæðinu.  FS hefur ekki með framkvæmdir á VHÍ svæðinu að gera og er bent á VHÍ ef íbúar hafa einhverjar athugasemdir við starfsemi á svæðinu. 

 

ANNAÐ
Verið er að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla á svæðum Stúdentagarða í samvinnu við ON. Er þetta unnið í mörgum smærri áföngum til að mæta þörfinni. Stæðin eru ekki eingöngu ætluð stúdentum þar sem þau birtast í ON appinu. Engin tímamörk eða hömlur eru á umfangi verksins, þörfin og eftirspurn mun ráða för að mestu leyti.