Framkvæmdaáætlun

Framkvæmdaáætlun

Framkvæmdaáætlun Stúdentagarða er birt með fyrirvara um breytingar

Framkvæmdaáætlun tiltekur stærri viðhalds- og breytingaverkefni Stúdentagarða en ekki almennt viðhald of ýmis minni verkefni sem eru hluti af daglegum rekstri eða taka skamman tíma. Reynslan sýnir að smá verkefni geta vaxið að umfangi og þ.a.l. má alltaf gera ráð fyrir að ekki verði hægt að tiltaka allar framkvæmdir í yfirliti sem þessu. Framkvæmdaáætlun tiltekur ekki framkvæmdir við náliggjandi hús og götur, framkvæmdir á vegum annarra aðila, s.s. veitufyrirtækja eða Reykjavíkurborgar. Það hvílir engin tilkynningaskylda á nágrönnum Stúdentagarða umfram það sem lög tilgreina.

Gamli Garður

Framkvæmdir á Gamla Garði hófust í nóvember 2019 og standa fram í október 2021. Um er að ræða 69 ný herbergi. Uppsteypu á svæðinu er að mestu lokið og taka þá aðrar framkvæmdir við, bæði innan- og utanhúss. Unnið er virka daga kl. 07:30 - 18:00 og einhverja laugardaga frá kl. 8 -16 ef þörf krefur.

Framkvæmdum við nýbyggingu Gamla Garðs verður lokið í ágúst 2021. Þó verður áfram unnið við frágang lóðar og mun líklega ekki ljúka fyrr en í október sama ár. Um er að ræða útiverkefni, s.s. lóðafrágang og einhver smávægileg verkefni innifyrir.

Hjónagarðar

Ekki eru fyrirhugaðar framkvæmdir í húsinu á næstunni. 

Íbúar á Hjónagörðum eru beðnir um að kynna sér framkvæmdaáætlun Vísindagarða (sjá neðar) og annarra húsa, s.s. Vetrargarðs.

Vetrargarður

Heildarendurnýjun á Vetrargarði er komin í gang, á næstu tveimur og hálfu ári verður allt húsið endurnýjað. Upptekt fer fram í áföngum. Áætlanir gera ráð fyrir að 1. áfanga, íbúðir 101-116, 201-216 og 301-309, muni ljúka í febrúar 2022. Í íbúðum verður skipt um innréttingar, innihurðar og gólfefni. Baðherbergi verða endurnýjuð og skipt um vatns- og hitalagnir auk íbúðahurða. Í sameign verður skipt um gólfdúka á göngum 2. og 3. hæðar. Gólf á 1. hæð verður brotið upp og það einangrað, lögð í það hita- og járnlögn og steypt á hefðbundinn hátt. Gólfið verður svo dúklagt á sama hátt og aðrir gangar. Skipt verður um þakjárn á þeim hluta þaksins sem nær yfir íbúðir á 3. hæð.

Að 1. áfanga loknum taka við framkvæmdir á Eggertsgötu 10 og að lokum á Eggertsgötu 8.

Íbúar á Vetrargarði eru einnig beðnir um að kynna sér framkvæmdaáætlun Vísindagarða (sjá neðar).

Ásgarðar 

Gamla Eggertsgatan (nú bílastæði Stúdentagarða) verður malbikuð einhvern tímann á tímabilinu 25. maí til 30. júlí 2021. Verkið verður unnið í áföngum til að létta álagi af svæðinu, meðan á framkvæmdum stendur verður að rýma það svæði sem unnið er við af bílum. Þegar malbikun er lokið verður yfirborðið merkt með bílastæðalínum og öðrum viðeigandi merkingum. Líklega lokast botlangar sitthvoru megin við Eggertsgötu 24eitthvað meðan á verkinu stendur.

Á næstu árum stendur til að taka í gegn þök húsanna á Ásgörðum. Sumarið 2021 verður þak húsa 12-14 og 16-19 endurnýjað. Ekki stendur til að fara í endurnýjun á þaki Eggertsgötu 24, sem er yngra hús en önnur í hverfinu.

Sumarið 2021 þarf að endurnýja þaksvalir fyrir ofan íbúðir í kjallara á Eggertsgötu 24 vegna leka frá þaksvölum á 1. hæð. Brjóta þarf upp mynstursteypu, hreinsa af vatnþéttidúk og einangrun áður en viðgerðir hefjast. Að lokum verður sett nýtt vatnsþéttilag, einangrun og hellur yfir. Einhver hávaði mun fylgja verkinu.

Sumarið 2021 verður unnið í endurnýjun lóðar á leikskólanum Mánagarði. Verklok eru áætluð í lok september. Framkvæmdin er á vegum Reykjavíkurborgar.

Tími er kominn á að einstaka íbúðir verði endurnýjaðar. Mun sú vinna fara fram samhliða leiguskiptum eftir því sem ástæða er til hverju sinni.

Íbúar á Ásgörðum eru einnig beðnir um að kynna sér framkvæmdaáætlun Vísindagarða (sjá neðar).

Oddagarðar

Fara þarf í ýmislegt viðhald á þökum Oddagarða á næstu árum. Einnig þarf að fara í almennt viðhald á stigahúsum og svalagöngum húsanna. Mun verkið hefjast sumarið 2021 en nákvæm verklok liggja ekki fyrir.

Framkvæmdir eru að hefjast á vegum Alvogen/Alvotech við stækkun, jarðvinna hefst í janúar 2021 og byggingarframkvæmdir í framhaldinu. Reikna má með að verkið taki rúm tvö ár. Gera má ráð fyrir umferðartöfum og ónæði á öllu tímabilinu.

Íbúar á Oddagörðum eru beðnir um að kynna sér framkvæmdaáætlun Vísindagarða (sjá neðar).

Mýrargarður

Mýrargarður opnaði í janúar/febrúar 2020. Framkvæmdum við húsið sjálft á vegum FS er lokið. Á næstu lóðum eru fyrirhugaðar fjölmargar framkvæmdir sem munu hafa áhrif á íbúa á næstu árum. 

Framkvæmdir eru að hefjast á vegum Alvogen/Alvotech við stækkun, jarðvinna hefst í janúar 2021 og byggingarframkvæmdir í framhaldinu. Reikna má með að verkið taki rúm tvö ár. Gera má ráð fyrir umferðartöfum og ónæði á öllu tímabilinu.

Íbúar á Mýrargarði eru beðnir um að kynna sér framkvæmdaáætlun Vísindagarða (sjá neðar).

Skerjagarður

Fyrirhugaðar eru lagfæringar á staðbundnum skemmdum á múrkerfi hússins og smáviðgerðir á þökum um sumar/haust 2021.

Skuggagarðar

Á Lindargötureitnum er í gangi deiliskipulagsvinna í samvinnu við Reykjavíkurborg og aðliggjandi lóðarhafa sem hafa einnig hug á ýmsum framkvæmdum í framhaldinu. Verkefnið hefur ekki verið tímasett nákvæmlega og verður kynnt nánar þegar það liggur betur fyrir.

Skógargarðar

Framkvæmdir við endurnýjun íbúða á Skógarvegi er á lokastigum og klárast í mars 2021. 

Yfirbygging innigarða á Skógarvegi 20 klárast í febrúar nk. Hefst vinna við yfirbyggingu innigarða á húsum 18 og 22 í framhaldinu en endanleg verklok verða ekki fyrr en haustið 2021. Hluti af framkvæmdum vegna yfirbygginga er að setja upp hljóðísogsfleti í inngörðum til að bæta hljóðvist.

Framkvæma þarf ýmsar viðgerðir á múr- og steypu í inngörðum eftir að búið er að loka þeim. Íbúar fá tilkynningu um þessar framkvæmdir þegar umfang, útfærsla og verktími liggur fyrir.

Ráðast þarf í viðhald og endurbætur á bílageymslu milli húsanna og lagfæringar á bílastæði (malbiki) ofan á bílageymslunni. Íbúar fá tilkynningu um þessar framkvæmdir þegar umfang, útfærsla og verktími liggur fyrir.

Skjólgarður

Engar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á vegum Stúdentagarða.

Vísindagarðar

Hlutverk Vísindagarða Háskóla Íslands er að vera alþjóðlega viðurkenndur vettvangur tækni- og þekkingarsamfélags á Íslandi sem á virkan hátt hlúir að og tengir saman frumkvöðla, fyrirtæki, háskóla, stofnanir og aðra hagsmunaaðila sem vinna að því að stórefla hagnýtingu rannsókna, nýsköpun og viðskiptaþróun til hagsældar og heilla fyrir land og þjóð (tekið af heimasíðu verkefnisins).

Næstu árin mun þekkingarþorp rísa á svæðinu og framkvæmdir verða því margvíslegar, bæði rísa nýjar byggingar og gatnaframkvæmdir verða á svæðinu. Ýmsar framkvæmdir fara nú fram á Vísindagarðasvæðinu. FS hefur ekki með framkvæmdir á svæðinu að gera og er bent á VHÍ ef íbúar hafa einhverjar athugasemdir við starfssemi á svæðinu.