Búseta

Búseta

Við biðjum íbúa um að kynna sér vel þær upplýsingar sem má finna má um búsetu þ.e. ábyrgð leigjenda, tryggingar, framlengingu leigusamninga og fleira. Upplýsingarnar má finna í úthlutunarreglum.

Við bendum einnig á að nauðsynlegt er að netfang íbúa, sem skráð er inn á "mínar síður" af viðkomandi nemanda, þarf að vera rétt - en þangað berast íbúum allar upplýsingar frá Stúdentagörðum. Meðal annars vegna áframhaldandi búsetu. Hafir þú ákveðið að skipta um netfang eða notar annað netfang oftar skaltu smella á "mínar síður" hér fyrir ofan og breyta upplýsingunum þínum.

 
Neyðarnúmer Stúdentagarða er 853 1000
  • Hægt er að hringja í númerið utan opnunartíma hjá Umsjón fasteigna og skrifstofu Stúdentagarða.
  • Einstaklingurinn sem svarar neyðarnúmeri metur í hvert sinn hvort bregðast þurfi strax við erindinu eða hvort það geti beðið.
  • Ef um ótvírætt neyðartilvik er að ræða skal hringja í 112.
  • Einnig bendum við á hjálparsíma Rauða krossins s: 1717 sem opinn er allan sólarhringinn fyrir þau sem á þurfa að halda.
  • Náms- og starfsráðgjöf HÍ veitir einnig fjölbreytta þjónustu. Þar er opið virka daga kl. 9 - 12 og 13 - 16. Síminn er 525 4315.

 

Stúdentagarðar eru umhverfisvænt samfélag þar sem flokkun skal vera til fyrirmyndar. Allir íbúar þurfa að leggja sitt af mörkum, taka þátt og fylgja leiðbeiningum.

Á Stúdentagörðum er bæði að finna djúpgáma sem taka við almennu sorpi, plasti, pappa, málmum og gleri sem og hefðbundna flokkunarvalkosti; almennt sorp, pappa og plast. Grenndargámar eru einnig á háskólasvæðinu, við Eggertsgötu og fjölda grenndargáma má finna miðsvæðis. Við Skógarveg er næsti grenndargámur á Háaleiti.

Hægt er að finna góðar leiðbeiningar á sorpa.is og á vef Reykjavíkurborgar, en þar er m.a. Sorphirðudagatal og góðar upplýsingar um Flokkun úrgangs.

Íbúar eru ábyrgir fyrir þrifum á eigin íbúðum eða herbergjum og bera sameiginlega ábyrgð á þrifum á ruslageymslu, hjólageymslu, þvottahúsi og snjómokstri úr tröppum samkvæmt skipulagi frá ræstingastjóra (ath. þetta á ekki við um Eggertsgötu 24, Skerjagarð eða Skuggagarða).

Þá bera íbúar á Oddagörðum einnig ábyrgð á þrifum í sameiginlegri aðstöðu (eldhúsi).

Ef íbúð telst ekki nægilega vel þrifin við brottflutning mun hún verða þrifin á kostnað leigutaka. Þau þrif eru aðkeypt og fer verð eftir fermetrafjölda þess leigða.

Félagsstofnun stúdenta (FS) ber ekki ábyrgð á skemmdum á eða glötuðum eigum íbúa, hvort sem eigur eru skildar eftir í þvottahúsi, hjólageymslu eða annarri sameign hússins. Undantekningar eru þó skemmdir á fatnaði sem sannanlega má rekja til bilunar á þvottavélum FS.

Íbúi er ábyrgur fyrir því húsnæði sem hann býr í allan leigutímann og því er mikilvægt að kynna sér allt er við kemur húsnæðinu sjálfu, þrifum, hvernig umgengni skal háttað o.s.frv. Sérstaklega er bent á mikilvægi þess að lofta út og passa að vatn liggi ekki í gluggakistum. Það getur orsakað raka í húsnæði.

Við Stúdentagarða FS má finna bílastæði en þó eru ekki stæði á hverja íbúð. Áhersla er lögð á að byggja húsnæði nálægt HÍ, í göngu- og hjólafjarlægð eða með gott aðgengi að almenningssamgöngum. 

Leigjendur hafa afnot af sameiginlegum bílastæðum en er ekki heimilt að hafa fleiri en einn bíl að staðaldri á stæðinu og alls ekki óskráða bíla, stærri atvinnubíla, kerrur eða önnur farartæki. Óheimilt er að geyma farartæki eða annað sem veldur þrengslum, óþrifnaði eða óprýði á stæðunum. Óskráðir bílar eru fjarlægðir á kostnað eigenda.

Sérstaklega skal áréttað að virða ber stæði merkt með auknu aðgengi og eingöngu ætluð þeim sem á þurfa að halda.

Á Skógargörðum og á Skjólgarði: Til að opna hurð að bílageymslu þarf að nota bílskúrshurðaopnara sem fæst gegn greiðslu tryggingafjár á skrifstofu Umsjónar fasteigna. Einungis verður afhentur einn bílskúrshurðaopnari fyrir hverja íbúð. Verð fyrir bílskúrshurðaopnara er 15.000 kr sem greiðist til baka við skil á opnara.

 

Leigutakar eru skyldugir til að kynna sér sérstaklega brunakerfi húsa og fylgja leiðbeiningum um viðbrögð við brunaboða sem eru í íbúðunum til fullnustu. Leiðbeiningar má finna í öllum íbúðum. Eigi íbúar við skynjara svo að það hafi áhrif á brunaboða í húsnæði Stúdentagarða lendir kostnaður við lagfæringar alfarið á viðkomandi íbúa. Umsjón með kerfum og viðgerð er einungis  í höndum öryggisþjónustufyrirtækja og fer kostnaður eftir gjaldskrá viðkomandi fyrirtækis hverju sinni. Íbúum er ekki heimilt að sinna lagfæringum á kerfinu sjálfir, til að takmarka/forðast kostnað, þegar átt hefur við kerfið á annan hátt en leiðbeiningar sýna. 

Vetragarður, Oddagarðar 14-16, Gamli Garður og Skerjagarður eru með brunaviðvörunarkerfi sem er tengt í stjórnstöð Securitas. Leiðbeiningar fyrir kerfi má finna við inngang í allar íbúðir sem íbúar verða að kynna sér.
Töluverður kostnaður getur hlotist af fyrir íbúa ef kerfi fer af stað í íbúð án þess að viðkomandi íbúi bregðist rétt við.

Skjólgarður er með brunaviðvörunarkerfi sem tengt er í stjórnstöð Securitas. Íbúar skulu kynna sér leiðbeiningar svo að rétt sé staðið að, fari kerfið af stað. Töluverður kostnaður hlýst af, bregðist íbúar ekki við falskri viðvörun. Undir engum kringumstæðum má taka brunaboða úr hlustri í lofti, kalla þarf til tæknimann til að laga og endurstilla kerfi. Slíkt hefur mikinn kostnað í för með sér, fyrir leigutaka. 

Vakin er athygli á að best er að tryggja loftun/reykræstingu áður en kerfið er endurstillt ef kerfið fer af stað við eldamennsku, svo áreitið á skynjarann haldi ekki áfram með þeim afleiðingum að kerfið fari strax aftur í gang.

Samningar á Stúdentagörðum eru almennt gerðir til eins leigutímabils í senn og endurnýjast að þeim tíma liðnum að uppfylltum skilyrðum úthlutunarreglna.
 
Ferlið gengur þannig fyrir sig að í aprílmánuði óska núverandi íbúar eftir framlengingu á leigusamningi en þeim er skylt að fara inn á heimasvæði sín og svara þar hvort þeir óski eftir framlengingu eða ekki. Þær upplýsingar segja til um hvort framlengja eigi leigusamninginn (þ.e. að því gefnu að skilyrði úthlutunarreglna Stúdentagarða fyrir framlengingu séu einnig uppfyllt) eða hvort finna eigi nýja leigutaka í húsnæðið.

Þegar ljóst er að nemandi hefur náð tilskyldum einingum, er skráður í háskólanám og er skuldlaus hjá Stúdentagörðum er húsaleigusamningur framlengdur rafrænt. Ekki þarf að koma aftur á aðalskrifstofu Stúdentagarða til að skrifa undir framlengdan samning.

Geymslur fylgja öllum íbúðum, ýmist inni í íbúð eða í sameign. 

Gætið þess að geymslur í sameign séu ávallt læstar og geymið ekki verðmæta muni í þeim.

Athugið að óheimilt er að geyma dót á geymslugöngum eða í sameign. Ef það er gert, þá er það alfarið á ábyrgð þeirra sem það gera. Munið eftir að tæma geymslu þegar flutt er úr íbúð. 

Mikilvægt er að íbúar lofti reglulega út í íbúðum og herbergjum sínum allt árið um kring og sérstaklega þegar kalt er úti.
Þegar heitt og rakt loft inni og kalt loft úti mætast á rúðum myndast raki innan á rúðum. Þá þarf að lofta út og þurrka glugga, gluggakistur og karma ef vatn sest í glugga. Ef þetta er ekki gert eru skemmdir fljótar að myndast. Af sömu ástæðu er mikilvægt að draga frá gluggum yfir daginn svo heitt og rakt loft lokist ekki innan á rúðunni.
 
Athugið að óheimilt er að birgja glugga með plastpokum, öðru plasti, pappa eða öðrum efnum. Við það myndast mikill hitamismunur í sólskini sem veldur miklu álagi á rúður og hættu á að þær springi. Springi rúður af þessum sökum, eða ef aðrar skemmdir verða vegna vanrækslu leigutaka við eðlilega útloftun, eru viðgerðir á kostnað leigutaka.

Allt gæludýrahald er stranglega bannað á Stúdentagörðum, sbr. 9. grein leigusamnings Stúdentagarða um umgengni og notkun þess leigða. 

Brot á þessum sem og öðrum reglum Stúdentagarða getur leitt til riftunar á leigusamningi. 

Húsgögn fylgja herbergjum á Gamla Garði og á Oddagörðum, en hægt er að fá rúm, borð og stól inn í aðrar íbúðir gegn 15.000 króna greiðslu. 
 
Ekki er heimilt að fjarlægja húsgögn úr herbergjum sem fylgja með íbúðum, án samráðs við Umsjón fasteigna. Það sama gildir um að flytja húsgögn á milli rýma.

Í þeim tilfellum sem íbúi (á einungis við um herbergi á Sæmundargötu 14 og 16) óskar eftir því að nota eigið rúm er hægt að senda póst á umsjon(hjá)fs.is með slíkri beiðni. Flutnings- og geymslugjald er 7.500 kr. 

Á fyrstu dögum hvers mánaðar eru leigugreiðslur innheimtar í gegn um heimabanka leigutaka en innheimt er fyrir fram fyrir hvern mánuð. 

Ef leigugjald er ekki greitt í síðasta lagi á  eindaga leggst vanskilagjald og dráttarvextir ofan á leigugjald. Vanskilagjald og dráttarvextir reiknast frá gjalddaga. Eindagi er 5. hvers mánaðar.
 
Hiti og rafmagn er innheimt með húsaleigunni en nettenging er innifalin í leigu. Leiguverð er tengt vísitölu neysluverðs og breytist því mánaðarlega. Upplýsingar um núgildandi verð er að finna á heimasíðu Stúdentagarða, undir liðnum Íbúðir, nánar tiltekið undir hverri íbúðartegund.

Leigutakar með gilda kennitölu þurfa ekki að reiða fram húsaleiguábyrgð af neinu tagi, heldur greiða einungis 4.000 kr. í umsýslugjald sem innheimtist fyrir hvern gerðan samning. Það þýðir að ef leigjandi framlengir samning, þá kemur aftur 4.000 kr. rukkun.

Örbylgjuloftnet er til staðar í öllum íbúðum. Íbúar leita til sinna þjónustuaðila vegna tengingu síma og sjónvarps. Tenglar eru í öllum húsum og útvega Stúdentagarðar nettengingu. 

Heimilt er að sækja um milliflutning á milli íbúðategunda á görðum en greiða þarf milliflutningsgjald fyrir flutninginn sem er nú 10.000 kr. 
 
Samkvæmt úthlutunarreglum Stúdentagarða fer milliflutningsfólk í T-flokk þegar kemur að forgangi. Vert er að taka fram að sæti á biðlista þegar um milliflutning er að ræða, gefur ekki raunsæja mynd af stöðunni, þar sem önnur lögmál heyra um milliflutning en þegar umsækjendur fá fyrstu úthlutun og koma inn sem nýir íbúar á görðum. Sjá nánar í úthlutunarreglum Stúdentagarða.
  
Til að sækja um milliflutning skal skrá sig inn á heimasvæði viðkomandi leigjanda og smella á milliflutning og fylla allar tilskyldar upplýsingar inn í umsóknarformið.

Gjalddagi er sú dagsetning sem æskilegt er að greiða reikning eða skuld. Eindagi er allra síðasti dagur til að greiða reikning áður en við bætast dráttarvextir og vanskilagjald.

Ferlið sem tekur við þegar reikningur hefur ekki verið greiddur eftir eindaga:
 
Eindagi +1 dagur– Innheimtuviðvörun er send frá banka viðkomandi leigutaka. 
Eindagi +11 dagar– símtal frá Momentum.
Eindagi +20 dagar– Lokaaðvörun frá Momentum.
Eindagi +30 dagar– Greiðsluáskorun.
Eindagi +38 dagar– Riftun frá Gjaldheimtunni.

Í öllum húsum eru starfandi eftirlitsaðilar (einnig þekktir sem ræstingastjórar, garðaprófastar eða umhverfisráðherrar) sem sjá meðal annars um skipulagningu ræstinga á sameiginlegum rýmum. Upplýsingar um ræstingastjóra/umhverfisráðherra/garðprófasta hvers húss má finna hér.

Innbú íbúa er ekki tryggt af Félagsstofnun stúdenta, heldur hefur hver íbúi samband við sitt tryggingafélag.

Bannað er að negla eða skrúfa í veggi íbúða. Hægt er að nota girni og króka til að festa myndir/muni í vegglista sem eru upp við loft íbúða. Ekki er heimilt að líma á né mála veggi íbúða.

Við bendum þó á að heimilt er að bora fyrir festingum fyrir mublur o.þ.h., af öryggisástæðum.
 
Hjá Bóksölu stúdenta má finna bæði girni og króka.

Sameiginlegt þvottahús er á fyrstu hæð/kjallara í hverju húsi á öllum Stúdentagörðum nema á Skógargörðum. Í staðinn er þar að finna þurrkherbergi og í íbúðunum sjálfum eru tengi fyrir þvottavélar.

Einnig eru tengi fyrir þvottavélar í flestum íbúðum á Vetragörðum.

Í sameiginlegum þvottahúsum Ásgarða, Oddagarða og Skógargarða er að finna skráningarblað þar sem að íbúar panta þvottavélar á ákveðnum tímum.