Beint á efnisyfirlit síðunnar

Leigusamningar

S: Hvert kem ég til að skrifa undir leigusamning?

Til að skrifa undir leigusamning þarftu að koma á skrifstofu Félagsstofnunar stúdenta, 3. hæð á Háskólatorgi á milli klukkan 09:00 og 16:00. Best er að koma sem fyrst eftir að íbúðarúthlutun hefur verið samþykkt. Leigjendur paríbúða þurfa báðir að skrifa undir leigusamning áður en afhending lykla getur átt sér stað. Sama á við um fjölskylduhúsnæði ef umsækjandi á maka. Sé leigutaki erlendis þarf hann að fylla út umboðseyðublað þar sem hann gefur öðrum formlegt leyfi til að undirrita samninginn fyrir hans hönd.

S: Á hvaða tímum get ég sótt og skilað lyklum?
Þú sækir lyklana að íbúðinni þinni hjá Umsjón fasteigna, Eggertsgötu 6, á milli klukkan 09:00 og 13:00 en skilar þeim á sama stað fyrir klukkan 10:00 á settum skiladegi. Þú getur skilað lykli til Umsjónar fasteigna fyrr en áætlað er en dragist skil húsnæðis fram yfir áður ákvarðaða skiladagsetningu þarftu að greiða þriggja daga leigu fyrir hvern dag sem skilin dragast.

S: Ég flutti inn nú nýlega, í mars, en samningurinn er bara fram í ágúst. Af hverju?
Allir samningar eru gerðir fram í ágúst hvert ár. Íbúðir geta losnað allt árið um kring og því eru sumir samningar aðeins til nokkurra mánaða. Þeim er svo framlengt á sumrin, fram í ágúst árið á eftir. Sjá hér að neðan nánar um framlengingu leigusamninga.

S: Hvernig virkar framlenging fyrir næsta skólaár?
Í apríl ár hvert fá íbúar tölvupóst vegna framlenginga á leigusamningum fyrir næsta skólaár. Þá er öllum íbúum skylt að skrá sig inn á sitt heimasvæði á heimasíðu Stúdentagarða og merkja við hvort þeir óski eftir framlengingu eða ekki. Unnið er úr beiðnum um framlengingu þegar yfirlit yfir námsárangur íbúa yfir skólaárið liggur fyrir, þ.e. yfirleitt í júlímánuði.
 
S: Hvernig segi ég leigusamningnum mínum upp?
Þú segir upp leigusamningi þínum inni á þínu heimasvæði. Þar smellir þú á "Leigusamningur" og "Uppsögn". Athugaðu að uppsagnarfrestur er þrír mánuðir, talið frá fyrsta degi næsta mánaðar. Því er mikilvægt að leigutakar segi upp með þriggja mánaða fyrirvara sé kostur á því. Þetta er gert til að hægt sé að gefa okkur tíma til að bjóða næsta leigutaka húsnæði með góðum fyrirvara. Mörgum þykir erfitt að taka við húsnæði með skömmum fyrirvara. Komi eitthvað upp á getur leigutaki óskað eftir því að losna fyrr og förum við þá í að kanna þau mál. Leigutaki er þó alltaf ábyrgur fyrir leigu í þessa þrjá mánuði ef enginn á biðlista vill taka við íbúðinni/herberginu fyrr. 
 

​S: Get ég hætt við uppsögn eftir að ég segi upp leigusamningnum mínum?
Þegar leigjandi segir upp samningnum sínum fer íbúðin eða herbergið í úthlutun til þess sem efstur er á biðlista hverju sinni. Það gerist þó ekki alltaf umsvifalaust, svo ef íbúðin/herbergið hefur ekki enn verið úthlutað getur þú hætt við uppsögn leigusamnings með því að hafa samband við okkur.

S: Hvernig veit ég hvort búið er að úthluta íbúðinni minni?
Stúdentagarðar hafa samband við þig þegar nýr leigutaki hefur skrifað undir leigusamning.

S: Þarf ég að skila vissum fjölda eininga til að halda íbúðinni?
Já, leigjendur á Stúdentagörðum þurfa að ljúka a.m.k. 40 einingum á hverju ári frá úthlutun húsnæðis. Þar af þarf að ljúka a.m.k. 18 einingum á haustönn. Nýir umsækjendur sem hafa þó verið skráðir í Háskólann þurfa að sýna fram á að hafa lokið 20 einingum síðastliðin tvö misseri, þ.e. 10 á hvorri önn.