Covid 19

Covid 19

Til að bregðast við því ástandi sem skapast hefur vegna heimsfaraldursins Covid-19 munu Stúdentagarðar FS tímabundið draga úr kröfum um námsframvindu. Að loknu skólaárinu haust 2019 - vor 2020 nægir að þeir sem sækjast eftir áframhaldandi búsetu sýni fram á að hafa lokið 20 ects einingum samtals á báðum misserum, þ.e. haust 2019 og vor 2020. Skal einnig sýnt fram á að nám verði stundað á haustmisseri 2020.  Auk þess verður reglum um hámarksdvalartíma ekki fylgt eftir nú á vormisseri 2020. 

Þeim sem lenda í tímabundnum tekjumissi vegna aðstæðnanna verður gefið svigrúm til að greiða 75% af leiguverði fram til 30. júní, þ.e. leigu í apríl, maí og júní.  Eldri gjalddagar eru óbreyttir. Þeir sem kjósa þetta úrræði þurfa að hafa gert upp útistandandi skuld 30. júní 2020. Er það skilyrði fyrir endurúthlutun á haustmisseri 2020. Reglur um uppsögn á leigusamningi eru óbreyttar.

Með þessari ákvörðun er stjórn FS að veita tilslökun á leigugreiðslum tímabundið vegna aðstæðnanna.

Þá hefur stjórn FS ákveðið að opna fyrir móttöku nýrra umsókna um húsnæði á Stúdentagörðum fyrr en áður. Nýir nemendur við HÍ geta nú sótt um frá og með 1. maí í stað 1. júní samkv. úthlutunarreglum.

Sjóður Háskóla Íslands

Úrræði til að bregðast við stöðu stúdenta við Háskóla Íslands búsettum á Stúdentagörðum sem eru í miklum greiðsluvanda:
 Félagsstofnun stúdenta, Stúdentaráð Háskóla Íslands og Háskóli Íslands hafa unnið að því að finna leið til að koma til móts við þá sem eiga í mestum greiðsluvanda á Stúdentagörðum. Hefur Háskóli Íslands brugðist við með því að ráðstafa fjármagni í sjóð sem starfa mun tímabundið og er um takmarkað fé að ræða. Í fyrstu umferð gátu þeir sótt um sem voru með leigusamninga á uppsagnarfresti á Stúdentagörðum og í miklum greiðsluvanda.  Í öðrum umgangi, eftir eindaga í júlí, geta þeir sótt um sem eru í miklum greiðsluvanda og hafa ekki greitt apríl, maí og/eða júní. Í sjóðnum eru fulltrúar frá Háskóla Íslands, Stúdentaráði og Félagsstofnun Stúdenta, þær Erla Guðrún Ingimundardóttir, Isabel Alejandra Diaz og Dröfn Sigurbjörnsdóttir.