Algengar spurningar

Algengar spurningar

Hvað þarf ég að skila af mér mörgum einingum á hverju misseri?
Íbúar þurfa að skila af sér 20 einingum á hverju misseri, samtals 40 einingum á skólaári. Athugið að í paríbúðum gildir það einnig um maka ef aðilar eru í hæsta forgangi, en það á við þau pör þar sem báðir aðilar stunda nám.
 
Við hvern tala ég ef eitthvað bilar hjá mér?
Ef raftæki eða annað sem tilheyrir íbúðum Stúdentagarða bilar eða skemmist sendir þú inn viðgerðarbeiðni í gegnum mínar síður 
 
Hvernig næ ég netinu?
Til að tengjast netinu þarf alltaf að vera með kapalsnúru. Leigjandi ræður svo sjálfur hvort hann kaupi einnig beini fyrir þráðlaust net. Snúran er tengd við tölvutengi í vegg íbúðar, annaðhvort beint í tölvu eða í beini. Því næst fylgir leigjandi leiðbeiningum um uppsetningu netsins sem hann fær á skrifstofu Stúdentagarða. Þá ætti netið að vera komið upp. Ef leigjandi er með beini og ofangreindar leiðbeiningar virka ekki þarf leigjandi að hafa samband við Reiknistofnun Háskóla Íslands. 
 
Netið er hætt að virka hjá mér. Hvað á ég að gera?

Byrjaðu á því að athuga hvort allt sé tengt heima, snúrur í sambandi og/eða beinirinn (e. router) þinn. Svo skaltu setja þig í samband við Reiknistofnun Háskóla Íslands. Þeir geta aðstoðað við að greina hvort þinn búnaður, tengill í íbúð eða hvort vandamál sé með háskólanetið.

Það er fjöldi þráðlausra neta á görðunum og þau geta valdið truflun í nærliggjandi íbúðum. Góð leið til þess að fá úr því skorið er að tengja kapalsnúru við routerinn og sjá hvort breyting verði á.

 Einnig er hægt að breyta stillingum í beini (e. router), slökkvir á 2,4GHz sendinum og hafir aðeins 5GHz sendi því minni hætta er á truflun frá öðrum þráðlausum sendum. 

Má ég framleigja til annars aðila? Eða lána vini íbúðina í stuttan tíma?
Öll ósamþykkt framleiga er stranglega bönnuð, í styttri eða lengri tíma, hvort sem það er gegn gjaldi eður ei. Það þýðir að aðeins þeir sem koma fram á leigusamningi mega búa í íbúðinni/herberginu.
Vinir og fjölskylda sem fá íbúð lánaða tímabundið falla því einnig þar undir. Húsnæði er einungis ætlað leigutaka og þeim sem koma fram á umsókn.
Þó er hægt að gera undantekningu t.d. vegna skiptináms en þó aðeins ef þú býrð í stúdíóíbúð, paríbúð eða fjölskylduíbúð. Framleigutaki verður að stunda nám við Háskóla Íslands. Fyrsta skref er að hafa samband við skrifstofu Stúdentagarða.

 
Ég læsti mig úti. Hvernig ber ég mig að?
Þú verður að hafa samband við lásaþjónustuna. Ef það er opið á Umsjón Fasteigna (9-13 virka daga) getur þú haft samband og athugað hvort hægt sé að smíða nýjan lykil fyrir þig.
 
Það er íbúasalur í húsinu mínu. Get ég fengið hann lánaðan til einkanota?
Þú getur óskað eftir því að fá hann lánaðan. Settu þig í samband við Umsjón fasteigna til að sjá hvort hann sé laus, umsjon(hjá)fs.is. Einnig ber þér að kynna þér reglurnar áður en útleiga er staðfest.
 
Hvað er í íbúðinni minni?
Það er misjafnt eftir íbúðategundum hvað fylgir með þeim þegar leigjandi flytur inn. Í einstaklings-, par- og fjölskylduíbúðum fylgja ísskápur, ofn/helluborð og skápar en í einstaklingsherbergjum með sameiginlegri aðstöðu fylgja rúm, skrifborð og skrifborðsstóll. Allt til alls er í eldhúsum. Til eru tveir flokkar af tvíbýlum, 5-2 og 5-5. Í báðum gerðum eru hefðbundnar innréttingar en í týpu 5-5 fylgir einnig rúm, skrifborð og skrifborðsstóll. Hægt er að sjá nánari upplýsingar um húsgögn í íbúðum undir Íbúðir.
 
Við hvern tala ég ef ég verð fyrir ónæði?

Ef þú verður fyrir ónæði annarra leigjanda á Stúdentagörðum skaltu hafa samband við skrifstofu Stúdentagarða. Sé ónæðið verulegt getur þú einnig haft samband við lögreglu.

Ég er alltaf að færast neðar á biðlista, hvers vegna er það?
Það er eðlilegt að færast upp og niður biðlistana, því listarnir eru lifandi. Þú færist upp lista ef einhver fær úthlutun og niður listann þegar nýjar umsóknir eru teknar inn. Það er ákveðinn forgangur á listum, sjá úthlutunarreglur og því færist þú niður þegar einhver kemur inn á lista í hærri forgangi. Farið er yfir umsóknir einu sinni í mánuði.

Dæmi: Einstaklingshúsnæði - höfuðborgarbúar færast niður biðlista þegar aðilar með búsetu utan höfuðborgar eru samþykktir inn á lista. Fjölskylduhúsnæði – fjölskylda með eitt barn færist niður lista þegar fjölskylda með tvö eða fleiri börn eru tekin inn á lista. Teknar eru inn nýjar umsóknir í hverjum mánuði.

Við bendum einnig á að skrásetningargjöld eru greidd í júlímánuði svo að nýnemar eru t.d að detta inn á listann allan mánuðinn sem breytir sætistölum oft og tíðum töluvert þann mánuðinn. 
 
Ég datt út af biðlista. Af hverju?
Það er helst tvennt sem getur komið til greina. Annað hvort gleymdir þú að staðfesta veru þína á biðlista eða þú varst að hafna boði um húsnæði í þriðja skipti. Í báðum tilfellum getur þú sótt um að nýju. Ef hvorugt á við hafið þá samband við skrifstofu Stúdentagarða.
 
Hve oft má ég hafna boði um húsnæði?
Í þriðja skipti sem þú hafnar boði fellur þú út af öllum biðlistum og umsókn þín verður óvirk. Þú getur þó sótt um að nýju.
 
Þarf ég að staðfesta veru á biðlista í sama mánuði og hún er samþykkt?

Umsóknir eru samþykktar í byrjun hvers mánaðar og því þarftu ekki að byrja að staðfesta fyrr en  í mánuðinum eftir að umsókn þín er samþykkt. Ef þú gleymir að staðfesta veru á biðlista þarftu að sækja um að nýju.
Dæmi: Sótt um í maí – umsókn samþykkt í júní – byrjað að staðfesta veru á biðlista í júlí.

Ef ég kemst ekki inn á heimasvæði mitt til að staðfesta veru mína á biðlista?

Sendu póst á starfsfólk Stúdentagarða eða á studentagardar(hjá)fs.is innan tímamarkanna og láttu vita. Þá telst sannað að þú hafir reynt.

 

Hvar sæki ég um húsnæðisbætur?
Þú sækir um húsnæðisbætur inn á hms.is.

Þegar þú sækir um þarftu að hafa leigusamninginn þinn hjá þér því þar finnur þú m.a. kennitöluna okkar, upphæð leigu, fastanúmer íbúðar og fleira sem þú þarft að gefa upp.

Ef þú lendir í vandræðum með að finna fastanúmer á íbúðinni þá finnur þú það með því að fara inn á Þjóðskrá og slá inn heimilisfangið þitt.

Hvert kem ég til að skrifa undir leigusamning?

Við höfum tekið í gagnið rafrænt undirskriftarform. Við sendum þér samning til rafrænnar undirritunar þegar þú hefur samþykkt úthlutun. Þú þarft að vera með rafræn skilríki til að skrifa undir, nánar: skilriki.is
Ef um paríbúð eða fjölskylduíbúð er að ræða þurfa báðir aðilar að skrifa undir.

 
 Á hvaða tímum get ég sótt og skilað lyklum?

Þú sækir lyklana að íbúðinni þinni hjá Umsjón fasteigna, Eggertsgötu 6, á milli klukkan 09:00 og 13:00 en skilar þeim á sama stað fyrir klukkan 10:00 á settum skiladegi. Þú getur skilað lykli til Umsjónar fasteigna fyrr en áætlað er en dragist skil húsnæðis fram yfir áður ákvarðaða skiladagsetningu þarftu að greiða þriggja daga leigu fyrir hvern dag sem skilin dragast.

Ég flutti inn nú nýlega, í mars, en samningurinn er bara fram í ágúst. Af hverju?

Allir samningar eru gerðir fram í ágúst hvert ár. Íbúðir geta losnað allt árið um kring og því eru sumir samningar aðeins til nokkurra mánaða. Þeir eru svo framlengdir á sumrin, fram í ágúst árið á eftir. Sjá hér að neðan nánar um framlengingu leigusamninga.

 
Hvernig virkar framlenging fyrir næsta skólaár?

Í apríl ár hvert fá íbúar tölvupóst vegna framlenginga á leigusamningum fyrir næsta skólaár. Þá er öllum íbúum skylt að skrá sig inn á sitt heimasvæði á heimasíðu Stúdentagarða og merkja við hvort þeir óski eftir framlengingu eða ekki. Unnið er úr beiðnum um framlengingu þegar yfirlit yfir námsárangur íbúa yfir skólaárið liggur fyrir, þ.e. yfirleitt í júlímánuði.

Hvernig segi ég leigusamningnum mínum upp?

Þú segir upp leigusamningi þínum inni á þínu heimasvæði. Þar smellir þú á "Leigusamningur" og "Uppsögn". Athugaðu að uppsagnarfrestur er þrír mánuðir, talið frá fyrsta degi næsta mánaðar. Því er mikilvægt að leigutakar segi upp með þriggja mánaða fyrirvara sé kostur á því. Þetta er gert til að hægt sé að gefa okkur tíma til að bjóða næsta leigutaka húsnæði með góðum fyrirvara. Mörgum þykir erfitt að taka við húsnæði með skömmum fyrirvara. Komi eitthvað upp á getur leigutaki óskað eftir því að losna fyrr og förum við þá í að kanna þau mál. Leigutaki er þó alltaf ábyrgur fyrir leigu í þessa þrjá mánuði ef enginn á biðlista vill taka við íbúðinni/herberginu fyrr. 

 
Get ég hætt við uppsögn eftir að ég segi upp leigusamningnum mínum?

Þegar leigjandi segir upp samningnum sínum fer íbúðin eða herbergið í úthlutun til þess sem efstur er á biðlista hverju sinni. Það gerist þó ekki alltaf umsvifalaust, svo ef íbúðinni/herberginu hefur ekki enn verið úthlutað getur þú hætt við uppsögn leigusamnings með því að hafa samband við okkur.

Hvernig veit ég hvort búið er að úthluta íbúðinni minni?

Stúdentagarðar hafa samband við þig þegar nýr leigutaki hefur skrifað undir leigusamning.

Þarf ég að skila vissum fjölda eininga til að halda íbúðinni?

Já, leigjendur á Stúdentagörðum þurfa að ljúka a.m.k. 40 einingum á hverju ári frá úthlutun húsnæðis. Þar af þarf að ljúka a.m.k. 18 einingum á haustönn. Nýir umsækjendur sem hafa þó verið skráðir í Háskólann þurfa að sýna fram á að hafa lokið 20 einingum síðastliðin tvö misseri, þ.e. 10 á hvorri önn.


Hvar finn ég leiguupphæðir á Stúdentagörðum?
Leiguupphæðir Stúdentagarða eru misjafnar eftir íbúðategundum og staðsetningu en hægt er að sjá leiguverð inn á heimasíðu, undir Íbúðir og er leigutímabilið alltaf frá fyrsta til fyrsta hvers mánaðar. 
 
Hvað gerist ef ég greiði ekki leiguna?
Gjalddagi er sú dagsetning sem er æskilegt að greiða reikning eða skuld. Eindagi er allra síðasti dagur til að greiða reikning áður en við bætast dráttarvextir og vanskilagjald.
 
Ferlið sem tekur við þegar reikningur hefur ekki verið greiddur eftir eindaga:
 
Eindagi +1 dagur– Innheimtuviðvörun er send frá banka viðkomandi leigutaka. 
Eindagi +11 dagar– Símtal frá Momentum.
Eindagi +20 dagar– Lokaaðvörun frá Momentum.
Eindagi +30 dagar– Greiðsluáskorun.
Eindagi +38 dagar– Riftun frá Gjaldheimtunni.
 
Íbúi sem greiðir ekki janúarmánuði gæti því þurft að skila af sér húsnæði í lok mars, sé ekkert að gert.
 
Hvernig get ég séð sundurliðun á reikningi?
Í heimabankanum þínum undir rafræn skjöl. Þar getur þú séð reikninginn þinn sundurliðaðan. 
 
Ég flyt út í mánuðinum, þarf ég að borga fulla leigu?
Nei, ef þú flytur út um miðjan mánuð þarftu ekki að borga fulla leigu. Stundum skuldfærist þó full leiga í upphafi mánaðar en þú færð þá daga endurgreidda.
 
Þarf ég að greiða leigu af tveimur íbúðum ef ég milliflyt?
Nei, þú greiðir aldrei leigu af tveimur íbúðum á sama tíma þegar um milliflutning er að ræða. Starfsfólk velur dagsetningar svo að hlutirnir gangi upp.
 
Ég fékk íbúð seinna en samningurinn segir til um, fæ ég endurgreitt þá daga sem ég missti?

Samkvæmt úthlutunarreglum áskilja Stúdentagarðar sér þann rétt að draga afhendingu í allt að fimm daga án þess að leiga lækki. Allt umfram það skal endurgreitt að fullu.

 
Er hægt að greiða með kreditkorti?

Nei, við bjóðum ekki upp á greiðslu með kreditkorti.

Hverjir geta sótt um hjá Stúdentagörðum?

Allir sem stunda fullt nám við Háskóla Íslands geta sent inn umsókn. Hafir þú greitt skrásetningargjald við HÍ telst þú nemandi.

Komast allir á biðlista?

Nei, sumir uppfylla ekki þau skilyrði sem krafist er. Því er best að lesa úthlutunarreglurnar áður en sótt er um.

 
Geta bara nemendur í Háskóla Íslands sótt um?

Skilyrði þess að sækja um á Stúdentagörðum er að viðkomandi umsækjandi sé skráður nemandi við Háskóla Íslands og stundi þar fullt nám.

 
Ég stunda nám við HÍ en ekki maki minn. Við eigum börn og okkur langar að sækja um á Stúdentagörðum. Getum við það?

Já, sá sem sækir um fjölskylduhúsnæði þarf að stunda nám við Háskóla Íslands og eiga barn/börn. Ef þú átt maka þá skráir þú hann í umsóknina en hann þarf ekki að vera nemandi við HÍ. Þið njótið þó aðeins lægri forgangs. Meira um málið má finna í úthlutunarreglum.

Hvað geri ég ef það bilar raftæki hjá mér?
Ef raftæki eða annað sem tilheyrir íbúðum Stúdentagarða bilar eða skemmist sendir þú inn viðgerðarbeiðni í gengum "mínar síður".
 
Hvar get ég nálgast upphæðir vegna skattframtals?
Þú þarft sjálf/ur að leggja saman leigugreiðslur þínar fyrir árið. Það er gert með því að fara inn á heimabanka, rafræn skjöl og leggja saman mánaðarlegar leigugreiðslur.
 
Er ég tryggð/ur/tryggt á Stúdentagörðum?
Stúdentagarðar tryggja það sem tilheyrir íbúðunum en ekkert af innbúi leigjanda. Viljir þú tryggja eigur þínar þarft þú að hafa samband við tryggingafélög.
 
Get ég fengið meðmæli frá Stúdentagörðum?
Já, þú getur fengið meðmæli frá Stúdentagörðum. Þá er helst litið til hávaðakvartana og þess hvort leigjandi hafi greitt leigu á tilskildum tíma. Sendu tölvupóst á innheimta@fs.is og taktu fram hvort þú viljir hafa meðmælin á íslensku eða ensku.