Beint á efnisyfirlit síðunnar

Leigukerfi

Umsóknir nýnema, nýtt hús, vinir búa saman!

Umsóknir nýnema
Þann 1. júní opnast fyrir umsóknir nýrra nema við Háskóla Íslands um húsnæði á Stúdentagörðum Félagsstofnunar stúdenta. Reiknað er með að hundruðir umsókna berist fyrstu klukkustundirnar en alla jafna sækja um 1.000 manns um fyrir úthlutun á haustin.

Nýtt hús, vinir búa saman!
Framkvæmdir standa nú yfir við byggingu nýs Stúdentagarðs á háskólalóðinni, á Sæmundargötu í Vísindagarðahverfinu. Er hann sá stærsti sem byggður hefur verið, um 14.700  fermetrar á fimm hæðum með 244 leigueiningum fyrir tæplega 300 íbúa. Í húsinu verður m.a. boðið upp á nýtt íbúðaform, þ.e.  10 herbergja íbúðaklasa með sameiginlegu rými. Að auki verður stór sameiginlega aðstaða fyrir alla íbúa hússins miðsvæðis á lóðinni.  Nýi Stúdentagarðurinn verður tekinn í notkun í byrjun árs 2020 en tekið er við umsóknum nú frá og með 1. júní. Í fyrsta sinn verður boðið upp á að vinir geti deilt sameiginlegri aðstöðu.

Til þess að sækja um slíkt fyrirkomulag sækir viðkomandi um herbergi með sameignlegri aðstöðu og setur nafn 1-2 vina í athugasemd. Sömu vinir gera slíkt hið sama. 

Félagsstofnun stúdenta hefur undanfarin ár lagt aukna áherslu á sameiginleg rými við hönnum nýs húsnæðis en auk þess hefur sameiginleg aðstaða  verið aukin og betrumbætt í eldra húsnæði. Tilgangurinn er að hvetja til aukins samneytis íbúa og vinna gegn félagslegri einangrun. Félagsstofnun stúdenta stefnir að áframhaldandi uppbyggingu Stúdentagarða en undanfarin ár hafa um 800 - 1.000 manns verið á biðlista að haustúthlutun lokinni. Nýnemar geta sótt um frá 1. júní ár hvert en eldri nemar allt árið um kring.
MEIRA

Stúdentagarðar

Á Stúdentagörðum er líflegt og skemmtilegt samfélag háskólanema og fjölskyldna þeirra. Garðarnir eru af ýmsum stærðum og gerðum og sniðnir að þörfum íbúanna. Áhersla er lögð á góða nýtingu á plássi, hagkvæmni, samnýtingu og samveru til að stuðla að góðum samskiptum íbúa.
Flestir Stúdentagarðanna eru staðsettir á háskólasvæðinu en einnig eru stúdentaíbúðir í Fossvogi, rétt fyrir ofan Hlemm og við Lindargötu. Þegar staðsetning Stúdentagarða er valin er lögð áhersla á að húsnæðið sé í nágrenni við HÍ, í göngu og hjólafjarlægð eða nálægt góðum almenningssamgöngum. Mikil áhersla er lögð á að gera sameiginleg rými vistleg og skemmtileg þannig að íbúar kynnist, eigi samskipti og njóti saman.
Stúdentar við Háskóla Íslands geta sótt um húsnæði allt árið um kring en þeir sem hefja nám við skólann í haust geta sótt um frá og með 1. júní.
MEIRA